150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:42]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það kemur kannski ekki á óvart að ég er sammála hv. þingmanni. Þetta er ekki nóg, það þarf að gera meira. Hér hefur verið bent á að við erum í mikilli innviðaskuld. Það er talað um allt að 300 milljarða í uppsafnaðri fjárfestingarþörf í innviðum landsins. Því kemur á óvart að ekki sé að finna fleiri verkefni að mati ríkisstjórnarinnar sem raunhæft er að ráðast í en sem nemur 10 milljörðum plús/mínus sem eru á dagskrá hjá ríkisstjórninni. Það kemur líka á óvart, og olli mér reyndar meiri vonbrigðum, að ekki sé hægt að setja meira í nýsköpun og tæknifyrirtæki en felst í tillögum stjórnvalda því að þar er svo auðvelt að koma út fjármunum. Þar er svo auðvelt að hækka endurgreiðsluhlutfall og endurgreiðslufjárhæðir vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar. Það er svo auðvelt að auka framlög til ýmiss konar rannsóknasjóða. (Forseti hringir.) Kosturinn við þekkinguna er nefnilega að hún glatast aldrei þó að við rennum oft blint í sjóinn með það nákvæmlega hver atvinnusköpunin til skamms tíma verður.