150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[15:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér er mjög annt um tölur og talan mín um fjölda beinna starfa í ferðaþjónustunni er rétt. Það er hægt að fara inn á vef Hagstofunnar og sjá að störfin eru rúmlega 29.000, ég sagði reyndar 30.000. Það eru tölur frá Hagstofunni um fjölda beinna starfa í ferðaþjónustunni þannig að ég stend við það sem ég sagði um fjöldann. Við skulum samt ekkert vera að rífast um það. Það eru fjölmörg störf í ferðaþjónustunni og hluti þeirra er ekki inni í þessari tölu, þau eru utan kerfis. Við vitum það alveg. Mörg störf í ferðaþjónustunni eru í mikilli hættu og hv. þingmaður hefur jafn miklar áhyggjur af því og ég, ég veit það, og þetta verður erfitt fyrir þessa grein.

Í annað sinn á tíu árum fær meginatvinnugrein á Íslandi gríðarlegt högg. 2008 var það fjármálageirinn sem við ætluðum öll að verða rík á. Nú er það ferðaþjónustan sem fær gríðarlegt högg. Eins og ég gat um áðan nær áfallið til miklu víðari hluta atvinnulífsins en bara ferðaþjónustunnar því að eftirspurnin hefur dregist allhressilega saman.

Ég er hérna með fylgirit fjárlaga 2020. Þessi ríkisstjórn lækkaði fjárframlög til Tækniþróunarsjóðs frá 2018 til 2020 um 20%. Ég veit að núna er verið að bæta í 700 milljónum en fyrir þetta hrun var ríkisstjórnin búin að ákveða að lækka framlög í Tækniþróunarsjóð. Þetta er mjög skýrt á bls. 69, lækkun í Tækniþróunarsjóð til næstu fimm ára. Hið sama má segja um Rannsóknasjóð og Innviðasjóð. Lækkun endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar er 30% milli áranna 2019 og 2020.

Núna er staðan öðruvísi, ég veit það, og ríkisstjórnin er að reyna að bæta í en Tækniþróunarsjóðurinn hefur samkvæmt fjárlögum rúma 2 milljarða. Það er ekki stóra talan í fjárlögunum. Það hefði verið hægur leikur að þrefalda þann sjóð vegna eftirspurnar eftir fjármagni úr honum. Munið að bara einn þriðji af þeim verkum sem fá hæstu einkunn Tækniþróunarsjóðs (Forseti hringir.) fær úthlutað úr þeim sjóði. Þetta finnst mér vera vannýtt auðlind, sérstaklega í krísuástandi.