150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[15:28]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki endilega að bera saman ferðaþjónustuna og bankana. Ég er að gera efnahagslegan samanburð, sérstaklega í ljósi þess að við getum nýtt okkur þá ömurlegu reynslu sem við höfum úr bankahruninu. Það er ákveðin verkfærakista sem stjórnvöld nýttu sér. Sumt virkaði vel en sumt virkaði hörmulega. Sleppum því hörmulega og nýtum okkur það sem virkaði þó vel. Hlutabótaleiðin sem við erum að nýta núna er gömul leið. Endurgreiðsla á virðisaukaskatti er gömul leið. Það að setja fjármagnið í nýsköpun er leið sem við fórum eftir bankahrun. Þáverandi ríkisstjórn setti á fót sérstaka græna fjárfestingaráætlun undir formerkjum græna hagkerfisins sem ríkisstjórnin eftir þá ágætu ríkisstjórn setti í skúffu. Dustum rykið af þessu, byggjum upp atvinnulífið. Ég veit að ferðaþjónustan mun rísa upp úr þessu en þótt það sé erfitt núna meðan við erum í rústabjörgun skulum við líka leyfa okkur að líta aðeins til framtíðar og skoða hvernig atvinnulíf við viljum sjá. Ég vil ekki vera sá stjórnmálamaður sem velur hvaða atvinnugreinar eiga að lifa og hverjar ekki. Það er alls ekki mitt hlutverk. Ég vil vera stjórnmálamaður sem býr til almennan ramma, stöðugleika í starfsumhverfi fyrirtækja, þar sem fyrirtæki verða til að frumkvæði fólksins í landinu, fólks sem er með sniðugar hugmyndir sem byggja á mannauði, sköpun, listum, tækni o.s.frv., fólks á öllum aldri og af öllum kynjum. Þess vegna vil ég búa til miklu styrkari umgjörð utan um nýsköpunarumhverfið. Það er ekki bara einhver frasi að segja: Eflum nýsköpun.

Við eigum að efla nýsköpunarsjóði, nýsköpunarumhverfið, Rannsóknasjóð og Innviðasjóð. Það skilar sér margfalt til baka. Eflum endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar. Reynum að fá aftur verkefnin þegar þau byrja. Það bætir að sjálfsögðu mannlífið en það bætir líka við störfum sem búa til skatttekjur og það tryggir okkur sterkara velferðarkerfi.

Lítum öll til framtíðar, hugsum um hvers konar (Forseti hringir.) atvinnulíf við viljum byggja til framtíðar, gerum það með almennum hætti en núna er tíminn til að styðja við okkar brothætta atvinnulíf. Núna þarf atvinnulífið á ríkisvaldinu að halda og þess vegna skiptir máli að við sýnum það í verki. Við getum það svo sannarlega ef okkur lánast að samþykkja einhverjar af tillögum stjórnarandstöðunnar í dag.