150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[16:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka að fjölmörg góð verkefni koma fram í breytingartillögum minni hluta og þar á meðal þeirri breytingartillögu sem hv. þingmaður er flutningsmaður að. Við ræddum sumar þeirra og við erum nokk sammála um nýsköpunina. Ég vil þó draga fram hér að við erum í þessari atrennu og ég legg áherslu á að þetta er ekki lokaskrefið. Ég myndi telja að meðan við erum að greiða okkur hér og fara í gegnum þessa óvissutíma og þennan skafl þurfi meira. Betur má ef duga skal, ég bara nota orð hv. þingmanns. Við í nefndinni erum þó í þessari atrennu að setja hér 1.250 milljónir til viðbótar við 1.750 milljónir í rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar. Það er býsna jákvætt skref í þeirri atrennu. Ég vildi þó draga það fram.