150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[16:41]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tvö mál saman, sérstakt tímabundið fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar annars vegar og fjáraukalög hins vegar. Ég ætla líka að byrja á að þakka fyrir samvinnuna í nefndinni. Það eru áskorunartímar að sitja í mjög marga klukkutíma í heila viku fyrir framan tölvuna, mér fannst ég orðin hálfferköntuð í framan. Á erfiðum tímum þarf að grípa til alls konar úrræða og það gerðum við hér á Alþingi og hefur bara tekist nokkuð vel í þessari vinnu. Ég ætla líka að segja að formaðurinn stóð sig afskaplega vel í að reyna að ná saman fólki til að laga það sem til okkar kom og minni hlutinn setti mark sitt á þær tillögur sem hér er að finna.

Margir hafa tíundað ansi margt í dag, enda tengjast þessi mál bæði í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd að sumu leyti og óþarfi að endurflytja það allt saman. Mér finnst þó mikilvægt að árétta nokkra hluti, m.a. að sú staða sem við stöndum frammi fyrir nú er allt önnur en var í hruninu 2008, sem betur fer. Bæði er ríkissjóður vel í stakk búinn til að takast á við þá erfiðleika sem við okkur blasa og sem betur fer eru flest heimili mun minna skuldsett en þau voru á þeim tíma. Við höfum verðstöðugleika og þrátt fyrir að eftirgjöf krónunnar sé einhver gefur ekkert í kortunum til kynna að verðbólgan fari af stað eins og 2008, en þá megum við heldur ekki gleyma að hún var 18% í upphafi hrunsins. Hún er rétt um 2% núna og í nýjustu mælingu Hagstofunnar er líka um að ræða lækkun á neysluvísitölu síðustu 12 mánaða. Þetta er bara eitt af mörgu sem er ólíkt því sem var 2008. Það breytir því hins vegar ekki að við þurfum stöðugt að meta verðlagsþróun og annað með hag heimilanna að leiðarljósi af því að við viljum halda bæði auknum kaupmætti og verðstöðugleikanum. Þess vegna er mikilvægt að endurskoða forsendurnar sem hér er horft til samhliða næstu þjóðhagsspá sem við fáum og taka þá stöðuna hvort Alþingi þurfi að grípa inn í.

Mig langar aðeins að tala um Seðlabankann og þau lán sem honum er ætlað að veita með ríkisábyrgðum, svokölluð brúarlán, sem gerir það að verkum að 50–70% ábyrgð getur orðið á viðbótarlánum til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs sem við glímum við. Í fjárlaganefnd var hvað mest rætt um skilyrði, talin eru upp átta skilyrði í frumvarpinu sjálfu en samt þótti nefndinni ástæða til að hafa enn frekara og meira eftirlit með því og við ræddum töluvert um að skipa óháða eftirlitsnefnd. Sem betur fer varð samróma álit efnahags- og viðskiptanefndar og fjárlaganefndar að slíkt skyldi gert til að fylgjast með framkvæmd ákvæðisins. Bankarnir njóta ekki nægilega mikils trausts í samfélaginu og eftir hrunið 2008 hefur það eiginlega aldrei risið almennilega upp aftur. Nefnd á að skila ráðherra skýrslu um framkvæmd þessara lána á sex mánaða fresti og í fyrsta sinn strax fyrir 1. nóvember. Nefndin þarf að upplýsa ráðherrann líka um ef einhvers konar brotalamir verða á framkvæmdinni. Síðan á ráðherra að leggja skýrslurnar fyrir Alþingi. Meiri hlutinn í fjárlaganefnd lagði líka til að sett yrðu skilyrði um að fyrirtæki sem eru með viðbótarlán með ríkisábyrgð geti hvorki greitt eigendum sínum arð, sem mér þykir afar mikilvægt, né að þeim sé heimilt að kaupa eigin hlutabréf meðan þessi lán eru útistandandi. Þetta tvennt er ólíkt því hvernig við brugðumst við á sínum tíma og ég held að það sé afar mikilvægt.

Meiri hlutinn viðrar það líka að til þess geti komið að setja þurfi fjárhæðarmörk á einstakar lánveitingar. Ekki síst leggur meiri hlutinn áherslu á að skilyrðin, sem koma fram í samningnum við Seðlabankann, verði lögð fyrir fjárlaganefnd til umfjöllunar áður en samningurinn verður undirritaður. Þetta er ansi stórt atriði sem ég held að þurfi einmitt að hafa mikið eftirlit með. Ég tel líka alveg koma til greina, eins og hér var aðeins rætt í dag, að það sé uppi á borðum hvaða fyrirtækjum eru veitt lán. Ef það er undir lögum um bankaleynd eða einhverju slíku er fordæmi fyrir því að tiltekin nefnd, hópur þingmanna eða eitthvað slíkt hefur getað fengið aðgengi að slíkum skjölum í lokuðu herbergi þar sem hægt er að fara yfir þau til að fullvissa sig um að allt sé eins og það á að vera. Ég held að þessi eftirlitsnefnd komi til með að tryggja það mjög vel.

Einnig er mikilvægur samningurinn sem Samtök fjármálafyrirtækja gerðu með sér um að standa sambærilega við bakið á þeim fyrirtækjum sem koma til með að þurfa þessa fyrirgreiðslu. Bankarnir ætla ekki að greiða sér arð og þeir hafa lækkað vexti nú þegar. Ég tel því að þeir séu lagðir af stað í þá vegferð að reyna að endurvekja traust á sjálfum sér.

Virðulegi forseti. Við höfum nú þegar séð gríðarleg áhrif af kórónuveirunni á fyrirtæki í ferðaþjónustunni og svo glíma mörg önnur við gríðarlegan vanda og horfa fram á tekjuleysi næstu mánuði. Þetta ástand kemur til með að hafa áhrif á gríðarlega margar atvinnugreinar, ekki síst einyrkjana og smærri fyrirtæki.

Eitt af því sem hér er lagt til er 3 milljarða markaðsátak til að bregðast við fækkun ferðamanna. Helmingurinn er til að markaðssetja á erlendum mörkuðum verkefni af svipuðu tagi og Inspired by Iceland var og svo fær Ferðamálastofa hinn helminginn í formi þess að hvetja landsmenn til að ferðast innan lands í sumar. Markmiðið með þessum aðgerðum er að takmarka þann óhjákvæmilega skaða sem af þessu ástandi leiðir og allar þær aðgerðir sem hér eru undir. Við erum með 18 milljarða fjárfestingarpakka til viðbótar við þá ríflega 47 milljarða sem nú þegar eru í fjárlögum yfirstandandi árs. Það má alveg minna á það að frá fjárlögunum 2016 hafa þessar fjárfestingar hækkað um 72%. Svo getum við heldur ekki gleymt fjárfestingum opinberra fyrirtækja eins og Isavia, Landsvirkjunar og Landsnets.

Horft var til þess að þær tillögur sem lagðar eru til muni geta komið til framkvæmda strax á þessu ári. Þeim verður að vera lokið 1. apríl á næsta ári og þess vegna verðum við að horfa til þess þegar við erum að reyna að leggja til tugi milljarða til viðbótar hvað af þessu uppfyllir þau skilyrði. Það er heldur ekki hægt að setja ótakmarkað fé út í hagkerfið og telja að það komist allt saman í vinnu. Auk þess er gert ráð fyrir mun stærra fjárfestingarátaki sem verður lagt fram síðar, væntanlega í vor, sem nær yfir næsta ár og fram til ársins 2023. Við vitum að mörg verkefni þurfa að bíða þar til sú áætlun verður lögð fram og þarfnast meiri undirbúnings en svo að við getum bara skutlað þeim inn hér og nú. Við verðum að vera raunsæ og við verðum að sjá hvernig tekst til með það sem við setjum í gang og taka svo stöðuna aftur eins og margoft hefur verið sagt. Það er ljóst að þetta er bara fyrsta viðbragð.

Mig langar að nefna nokkrar tillögur og þær breytingar sem lagt er til að farið verði í strax. Það eru endurbætur á sjúkrahúsinu á Selfossi, breytingar á sjúkrahúsinu í Stykkishólmi, heilsugæslunni á Akranesi og Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík sem og það gleðilega verkefni að byggja við endurhæfingardeildina á Grensási. Það á að flýta framkvæmdum við áfangaheimili Samtaka um kvennaathvarf. Til að bregðast sérstaklega við því sem hefur dunið á okkur eru fjármunir settir m.a. til Landspítalans, Sjúkrahússins á Akureyri, heilsugæslunnar og Læknavaktarinnar til að betur sé hægt að takast á við afleiðingar Covid-19. Að auki eru settar 400 milljónir í veiruskimunarpróf og hlífðarbúnað.

Það á að fara í viðhald á hinum ýmsu fasteignum, t.d. framhaldsskólum, á húsnæði lögreglunnar á Akranesi og í Reykjavík og sýslumannsembættisins í Stykkishólmi, Verkmenntaskólans á Akureyri og fleiri skóla. 2 milljarðar verða settir í margvísleg umhverfismál, m.a. vegna orkuskipta í samgöngum. Þar er sérstaklega horft til hafntengdrar starfsemi. Uppbygging göngustíga verður víða um land, bæði í þjóðgörðum og annars staðar, sem og uppbygging grunninnviða á Jökulsárlóni. Aukið er við fjármuni í loftslagsráð og ekki má gleyma því að fjármunir eru settir í fráveitumál sem vinna á í samstarfi við sveitarfélögin og er mikið umhverfismál. 1.400 milljónir eru settar í að efla Rannsóknasjóð, Innviðasjóð og Tækniþróunarsjóð til að tryggja alþjóðlega samkeppnishæfni á vísindastarfi og rannsóknaumhverfi og til eflingar nýsköpun til að skapa ný störf sem byggja á hugviti og þekkingu.

Hér vil ég sérstaklega nefna Nýsköpunarsjóð námsmanna sem ég hef trú á að komi sér vel enda er hann ætlaður til þess að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn til sumarvinnu. Hér er líka lagt til að stutt verði við innlenda garðyrkju og nýsköpun í matvælaframleiðslu. Menning, listir og íþróttir fá 1 milljarð til að koma til móts við m.a. samkomubannið. Stafrænt Ísland og upplýsingatækni og þróun gagnagrunna fá 1.350 milljónir til að hraða enn frekar stafvæðingu opinberrar þjónustu.

Síðan eru gríðarlegar framkvæmdir áætlaðar í samgöngumálum og af því að nefnt var áðan að hægt væri að bæta við til að uppfylla það sem Vegagerðin gæti gert megum við ekki gleyma því sem fyrir er í núverandi innviðapökkum, samgönguáætlun og öðru slíku. Það er búið að fylla þann kvóta með þessu.

Ég vil líka nefna flughlaðið á Akureyrarflugvelli og viðbyggingu við flugstöðina á Akureyri sem við höfum beðið lengi eftir. Það styrkir allt millilandaflug og gefur færi á að opna enn frekari gáttir til landsins. Síðan er akbrautin á Egilsstaðaflugvelli sem verður farið í að lagfæra enda er það mikið öryggismál. Þórshafnarflugvöllur fær 126 milljónir til að gera völlinn ásættanlegan og gerð er tillaga um að malbika bílastæðin á Ísafjarðarflugvelli. Við þekkjum þá umræðu að flugvöllum hafi þurft að loka vegna bágs ástands en margir flugvellir skipta miklu máli vegna sjúkraflutninga. Ég tel bara upp það sem hér er lagt til til viðbótar varðandi flugvellina en svo eru auðvitað fleiri í upphaflegu tillögunni. Ég hvet fólk til að lesa tillögurnar um samgöngumálin því að þar má finna útlistun á helstu verkefnum.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur líka til að auka við sóknaráætlanir um 200 milljónir og 100 milljónir í Brothættar byggðir sem ég hef fulla trú á að nýtist vel enda heimamenn best til þess fallnir að ráðstafa fjármunum í landshlutunum sjálfum. Það hefur líka gefist vel. Frumkvæðisverkefni í Brothættum byggðum eru alla jafna atvinnuskapandi.

Heilbrigðisþátturinn er þó í algjörum forgangi. Gríðarlegt álag er á heilbrigðiskerfið og starfsemin hefur víða orðið fyrir mikilli röskun sem tekur langan tíma að rétta við eftir faraldurinn. Meiri hlutinn leggur til að 1 milljarður fari nú þegar til að mæta þegar áföllnum kostnaði að einhverju marki. Ég verð að segja eins og fleiri hér að heilbrigðisstarfsfólk á mikinn heiður skilinn fyrir sitt starf í framlínunni og ber að þakka því það sem og öllu starfsfólki í framlínu þjónustustarfa. Það er ekki sjálfsagður hlutur að setja allt til hliðar og einhenda sér í þetta risaverkefni eins og margur hefur gert og fyrir það verður aldrei nógsamlega þakkað.

Virðulegi forseti. Meiri hluti fjárlaganefndar gerði nokkrar félagslegar tillögur, m.a. um 400 millj. kr. framlag í eingreiðslu til öryrkja sem verður skattfrjáls og mikilvægt er að hún skerði ekki aðrar greiðslur til öryrkja. 100 milljónir eru lagðar í úrræði vegna heimilislausra með fjölþættan vanda og er þar horft m.a. til Reykjavíkur og Akureyrar. 40 milljóna framlag er til að vinna gegn kvíða og einmanaleika enda ljóst að margir eru innilokaðir og einir, ekki síst eldra fólk, og töluvert álag er á samtökum sem sinna þjónustu við það fólk.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að við tölum saman, ekki síst við þá sem eru einir. Reynum svo að glettast aðeins og hafa gaman eins og sjá má á samfélagsmiðlum að fólk er að reyna. Það að létta lundina skiptir miklu máli í því erfiða ástandi sem við búum við núna og við verðum að muna að þetta tekur allt enda þó að þetta sé ansi svart í bili.