150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[17:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir prýðisræðu. Við áttum ágætissamtal fyrr í dag í andsvörum, ég þarf í sjálfu sér ekki að fara yfir það en vil bara árétta að það er rétt sem hv. þingmaður sagði, minni hlutinn lagði sig svo sannarlega fram, tók þátt í þessari vinnu af heilum hug og lagði margt gott til eins og þau verkefni sem hv. þingmaður fór yfir. Ég ætla ekki að standa hér og eyða orku í að rengja það vegna þess að það væri rangt af mér. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þegar við metum umfang aðgerðanna sé það akkúrat málið sem hv. þingmaður talar um, að hér sé of lítið gert og að við megum ekki falla í þá gryfju að gera of lítið. Það er kannski spurning um nálgun sem ég gæti gert athugasemdir við. Ég er bara þannig að ég hugsa um næsta daga og við tökum næstu skref. Við þurfum að skoða öll þessi prýðisverkefni í samhengi við samgönguáætlun og fjárfestingaráætlun. Varðandi endurgreiðsluþakið er ég þar á sama báti og hv. þingmaður og ég er svo sannarlega tilbúinn að koma í það með honum að kalla eftir upplýsingum og horfa til þess hverju það skilar akkúrat núna. Það er ekki langt síðan við hækkuðum þetta þak og ég veit að því yrði fagnað hjá mörgum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

Ég ætla ekki að eyða orkunni í einhverja pólitík um að vera ósammála en það er greinarmunur á því hvernig við hugsum þetta. Ég held að við þurfum að gera meira. Við þurfum að gera meira og gera það markvisst og af öryggi. Að því leytinu til tek ég undir með hv. þingmanni og þakka honum aftur sérstaklega fyrir gott innlegg, góða samvinnu í nefndinni og margar góðar hugmyndir að venju.