150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[19:10]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Margt er gott í þessum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar. Þó vil ég benda á að enn er ósamið við hjúkrunarfræðinga. Önnur ríki hafa verið með álagsgreiðslur til þeirra og hér leggur minni hlutinn til að við sýnum þann sama sóma. Ríkisstjórnin hlýtur að fara að sýna þann sóma að klára samninga við hjúkrunarfólk sem ekki hefur haft hann í ár og ekki fengið að semja í fimm ár.

Þar á ofan vil ég nefna að gott hefði verið, og það komst til tals í nefndinni, að þau fyrirtæki sem fá núna þá heimild að Seðlabankinn veitir heimild í gegnum viðskiptabanka sem þýðir að prentaðir eru peningar — ríkið kemur á móti til helminga. Í þessari umferð tókst greinilega ekki að tryggja að þau fyrirtæki sem hafa greitt sér mikinn arð á síðustu árum þyrftu að koma með þá peninga til baka að einhverju leyti. Það er nokkuð sem þarf að líta til ef frekari aðgerða er þörf og jafnframt að ef þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki standa ekki í lappirnar eftir þetta þarf ríkið að hugsa um að gera eins og í hruninu (Forseti hringir.) og þjóðnýta þau ef þau fara í gjaldþrot, halda þeim gangandi, svo sem eins og Icelandair og önnur þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki.