150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[19:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Eins og aðrir vil ég þakka fyrir gott samstarf í nefndinni og samstarf minni hluta og meiri hluta við að fara í gegnum þau mál sem ríkisstjórnin lagði fram og hafa tekið heilmiklum breytingum í vinnu nefndarinnar. Að mjög mörgu leyti hefur sú vinna verið til bóta. Þó eru allmörg mál sem hefði mátt leysa miklu betur, eins og ég fer yfir í fyrirvara við nefndarálit frá efnahags- og viðskiptanefnd. Þó stendur upp úr að það er alveg ljóst að meira mun þurfa til. Meiri hlutinn hefur bent á að líklega muni þurfa meira til, að aðstæður muni breytast og þá þurfi að meta það.

Ég er þeirrar skoðunar að nú þegar liggi fyrir að miklu meira þurfi til og við höfum þegar fyrirliggjandi aðgerðir sem hægt væri að ráðast í sem væru til þess fallnar að bregðast við ástandinu eins og það er núna og fyrirsjáanlegt ástand svoleiðis að við þurfum ekki að grípa til aðgerða þegar það er orðið of seint eða þær eru farnar að hafa minni áhrif en ella.

Aðgerðir strax skila miklu meiri árangri en þær sem koma of seint.