150. löggjafarþing — 86. fundur,  2. apr. 2020.

kostnaður við kjarasamninga við hjúkrunarfræðinga.

[10:40]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Hæstv. ráðherra er skiljanlega viðkvæmur gagnvart spurningum um heilindi hans í jafnréttismálum, en er nema von að kona spyrji? Ráðherrann var rétt í þessu að mæla fyrir fjárfestingarátaki sem stenst engar kröfur um kynjuð fjárlög. Hann ætlar að eyða mörgum milljörðum í hefðbundin karlastörf en fæst svo ekki til að ræða af yfirvegun um sjálfsagða og löngu tímabæra kjarabót hjúkrunarfræðinga, 97% kvennastéttar. Ráðherrann hefur skýlt sér á bak við þá afsökun að gangi hann að launakröfum hjúkrunarfræðinga séu aðrir kjarasamningar ríkisins mögulega í uppnámi. En nú vitum við að hjúkrunarfræðingar eru með um 12% lægri meðallaun en aðrar starfsstéttir með álíka menntun og við vitum líka að vinna hjúkrunarfræðinga felur í sér meira álag og ábyrgð en vinna flestra annarra. Þetta er vaktavinna þar sem líf eru í húfi og aldrei eins og nú, eins og meira að segja ráðherra hlýtur að vera ljóst í miðjum mannskæðum heimsfaraldri. Hvað þarf til svo að hæstv. ráðherra hætti að skreyta kökuna með lélegum afsökunum og gefi hjúkrunarfræðingum sanngjarna sneið af kökunni?