150. löggjafarþing — 86. fundur,  2. apr. 2020.

túlkun skaðabótalaga.

[10:51]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Á Alþingi höfum við sett þau lög að við erum búin að klæða tryggingafélögin í samfesting, við erum búin að setja á þau belti og axlabönd. Nýjasta dæmið er að nú á að setja á þau ameríska örorkumatsbleiu þannig að ekki komist nokkur aur í gegn í vasa tjónþola. Hvernig getur verið löglegt að örorkunefnd hunsi dóm Hæstaréttar, að örorkunefnd búi til ný lög og fari í ameríska örorkumatstöflu þegar alltaf hefur verið miðað við danska töflu hingað til?

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er þessi nefnd komin með þetta mikil völd og þá í umboði hennar? Við þurfum að læra af reynslunni, við vitum að núna er ástand eins og var í bankahruninu og nú í þessu hruni að hætta er á því að stéttir sem eru með mikið álag slasist. Er reiknað með einhverjum stórum slysamálum fram undan og er verið að tryggja að viðkomandi sem lenda í slysum séu tryggðir? Já. En fá þeir það bætt? Nei, en það er kominn tími til. Það er annað í því samhengi: Við verðum að átta okkur á því að á sama tíma og tryggingafélögin hafa lögfræðingaskara til að verja sig og þvílíka fjármuni fær fólk ekki gjafsókn til að berjast við þau. Það fær ekki gjafsókn og ég spyr: Hvað er dómsmálaráðherra að gera í þeim málum? Er hún að leyfa þessari nefnd að taka málstað tryggingafélaganna gegn tjónþolum?