150. löggjafarþing — 86. fundur,  2. apr. 2020.

gagnsæi brúarlána.

[11:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mér fannst vera farið dálítið um víðan völl í þessari fyrirspurn. Þessi tvö atriði sem eru tiltekin sem spurningar til mín koma í framhaldi af því að hv. þingmaður virðist vera að fordæma það að stjórnin sé ekki með beina styrki til smáfyrirtækja. Þetta er afar athyglisverð hugmynd vegna þess að hún er komin í framkvæmd víða á Norðurlöndunum og ég tel að við munum áður en langt um líður þurfa að taka afstöðu til þess hversu langt við værum mögulega tilbúin til að ganga í beinum styrkjum til fyrirtækja til að þau missi ekki leiguhúsnæði, tapi ekki starfsmönnum o.s.frv. Víða er farin sú leið að slíkur stuðningur er skilyrtur því að fyrirtæki haldi fólki hjá sér á launum og stuðningnum er þá ætlað sérstaklega að fyrirbyggja það að ríkið taki við fólki beint á atvinnuleysisskrá og hins vegar að leigumál fyrirtækjanna lendi ekki öll í algjöru uppnámi. Þetta er umræða sem er mjög mikilvæg og við þurfum að dýpka hér í þinginu. En það er skrýtið að fara úr umræðu um að við eigum að gera meira af því að styrkja fyrirtæki beint yfir í að hafa áhyggjur af því að einhverjir fái mögulega lán sem þeir eigi að borga til baka eða að mögulega muni reyna á ríkisábyrgðina.

Ég held að við ættum frekar að hefja núna strax umræðu um það hvort við munum undir einhverjum kringumstæðum ekki láta reyna á fulla innheimtu allra slíkra lána. Ég held að það sé bara tímabært að ræða það strax. Eða ættu allir að ganga út frá því að hver einasta króna sem lánuð verður út úr bankakerfinu, líka með ríkisábyrgð, þurfi að innheimtast? Það sé einungis þegar viðskiptabanki hefur dregið viðkomandi lántaka til gjaldþrots sem er ásættanlegt að látið verði reyna á ábyrgðina? Þetta eru atriði sem við eigum að fara að ræða af fullri alvöru vegna þess að krísan er bara að dýpka.

Við munum sýna fullt gagnsæi gagnvart þinginu. Það er búið að skrifa það inn í lögin að það er komin sérstök eftirlitsnefnd sem mun tryggja þetta gagnsæi. Og já, ég tel koma vel til greina að þar verði birtir listar yfir öll fyrirtæki sem hafa fengið fyrirgreiðslu. Það er ekkert stórmál fyrir mér, það er bara sjálfsagður hlutur, fullt gagnsæi.