150. löggjafarþing — 86. fundur,  2. apr. 2020.

matvælaframleiðsla og fæðuöryggi.

[11:14]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegur forseti. Það gat nú verið að það væri hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sem kæmist inn með þessum hætti í fyrirspurn en ég fagna því sérstaklega af því að málefnið sem hann ræðir er gríðarlega mikilvægt og hefur verið rætt á vettvangi ríkisstjórnar. Þar hafa m.a. þessar aðgerðir verið kynntar sem er mjög góð samstaða um í ríkisstjórn og ráðherrar og ráðuneyti hafa unnið saman að með það að meginmarkmiði að tryggja framboð fæðu eða fæðuöryggis hér á landi. Meðal annars af þeim sökum höfum við í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu átt ágætt samstarf við heilbrigðisráðuneytið út af sóttvarnaráðstöfunum til að skilgreina þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki á sviði m.a. matvælaframleiðslu. Þar liggur fyrir ákveðinn listi sem, ef ég man rétt, kom í fréttum í gær, var birtur. Þar er því ákveðin trygging komin fyrir því að fyrirtæki geti gengið. Svo veit ég til þess að fyrirtækin eru búin að setja upp sína sóttvarnaáætlun, hvert og eitt. Ég met það svo að eins vel og kostur er sé búið að tryggja það að framleiðsla matvæla á Íslandi gangi í því ástandi sem nú er.

Þegar hv. þingmaður talar hér um gæði og ágæti grænmetisframleiðslunnar þá tek ég undir það með honum. Í burðarliðnum er samningur við garðyrkjuna sem tekur m.a. á því atriði sem hv. þingmaður var að nefna, sérstaklega varðandi raforkunotkun. Það er ekki tímabært að fjalla ítarlega um það. Við erum bara í miðju samtali við garðyrkjuna núna. Ég vonast eftir því að geta lokið samningum við hana helst í þessari viku, ef ekki núna þá fljótlega í næstu viku. Þetta er staðan þar og við leggjum mikið upp úr þessu.

Ég vil að síðustu segja um fæðuöryggið að við erum líka að taka ákveðin skref í aðgerðum sem snúa að því að hafa fyllri og betri upplýsingar um stöðu þeirra mála, (Forseti hringir.) sem við höfum ekki haft hingað til, og erum að leggja út í sameiginlega vinnu með Bændasamtökunum um að byggja upp það sem kallað er mælaborð landbúnaðarins, þannig að við höfum þessa hluti á hreinu.