150. löggjafarþing — 86. fundur,  2. apr. 2020.

matvælaframleiðsla og fæðuöryggi.

[11:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mig langar jafnframt að spyrja ráðherrann hvort það hafi komist til tals í ljósi aðstæðna í heiminum í dag að breyta lögum þegar kemur að landbúnaði með þeim hætti að hægt verði að fara í meiri samvinnu og samstarf innan landbúnaðarins. Það er gríðarlega mikilvægt í litlu og strjálbýlu landi að við höfum alveg skýrar reglur um það hvernig fyrirtækin geta starfað saman sem og það að við getum fengið sem mest út úr þeirri framleiðslu sem við höfum.

Mig langar líka að velta upp hvort ekki sé örugglega tryggt, fyrst verið er að horfa á það hvað landbúnaðurinn er mikilvægur, að hér sé til taks allt sem þarf til að reka landbúnað, olía og allt þess háttar.

Svo langar mig líka að spyrja hvort ráðherra hafi farið yfir það í ráðuneyti sínu hver áhrifin almennt eru á íslenskan landbúnað af faraldrinum sem geisar. Við vitum t.d. að loðdýraræktin er búin að eiga í vanda með verð í nokkur ár og nú þegar útlit var fyrir að verð á skinnum færi á að hækka kemur þessi faraldur og menn eru kýldir niður aftur. Hefur ráðherra skoðað það sérstaklega?