150. löggjafarþing — 87. fundur,  14. apr. 2020.

ávarpsorð forseta.

[13:30]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Ég býð hv. alþingismenn og starfsfólk Alþingis velkomið til starfa á ný eftir stutt páskahlé. Ég vona að okkur eins og landsmönnum almennt hafi tekist að njóta páskahelgarinnar þótt sérstakar aðstæður sé og þrátt fyrir að hefðbundin ferðalög eða samvera með stórfjölskyldu og vinum hafi ekki verið í boði. Fyrir hönd Alþingis færi ég landsmönnum bestu kveðjur, hvet til áframhaldandi samstöðu um þær aðgerðir sem eru að skila mjög sýnilegum árangri í baráttunni við vágestinn og tel mig mæla fyrir hönd okkar alþingismanna allra þegar ég segi að við munum gera það sem í okkar valdi stendur til að koma landinu í gegn um þetta með sem minnstum skaða. Við horfum fram á veginn einbeitt og vongóð.

Áfram verða forgangsverkefni Alþingis á næstunni að fjalla um og afgreiða þau mál sem tengjast samfélagslegum og efnahagslegum afleiðingum kórónuveirufaraldursins. Fundahöldum verður hagað í samræmi við þær aðstæður sem nú ríkja.

Forsætisnefnd gerði á fundi sínum fyrr í dag svohljóðandi samþykkt um tilhögun þingstarfa á næstunni:

„Forsætisnefnd vísar til ákvörðunar sinnar frá 19. mars sl. um að starfsáætlun Alþingis sé tekin úr sambandi. Yfirstandandi aðgerðir sóttvarnayfirvalda hafa nú verið framlengdar til 4. maí nk. og er því brottfall starfsáætlunar framlengt til þess tíma. Fyrirhugað er að endurskoðuð starfsáætlun fyrir 150. löggjafarþing taki við frá þeim tíma þegar nýjar reglur sóttvarnayfirvalda hafa litið dagsins ljós.

Á tímanum fram til 4. maí munu mál sem tengjast viðbrögðum við Covid-19 faraldrinum verða áfram í forgangi. Gert er ráð fyrir að þingfundadagar verði að hámarki tveir í viku þennan tíma, viðvera þingmanna og starfsfólks lágmörkuð í samræmi við samkomubann og tveggja metra nálægðarregluna.

Allir nefndarfundir á þessum tíma fara fram í gegnum fjarfundabúnað og ekki verði að jafnaði fleiri en tveir fundir í gangi á sama tíma. Nefndasvið mun sjá um skiptingu fundartíma milli nefnda í samræmi við óskir þeirra um fundartíma eftir því sem aðstæður leyfa. Mál tengd faraldrinum njóti forgangs. Þá munu Leiðbeiningar um fundahöld og notkun fjarfundabúnaðar á fundum fastanefnda til páskahlés þings, sem sendar voru formönnum fastanefnda o.fl. 20. mars sl., gilda til 4. maí nk.“

Ríkisstjórnin hefur sent Alþingi endurskoðaða þingmálaskrá, þar sem talsvert af fyrirhuguðum þingmálum er fellt niður í ljósi aðstæðna og hefur hún verið birt á vef þingsins. Hin endurskoðaða þingmálaskrá ásamt með öðru því sem hinar óvenjulegu og krefjandi aðstæður færa okkur upp í hendur leggur efniviðinn í nauðsynleg samtöl forustumanna flokkanna um framhaldið.

Einsýnt virðist að þingfundir muni þurfa að standa lengur fram á vorið og inn í sumarið en áður var áformað. Vonandi berum við gæfu til að viðhalda góðri samstöðu um þann ríka hlut sem Alþingi hlýtur eðli málsins samkvæmt að leika í því að bregðast við ástandinu, byggja upp að nýju og koma þjóðlífinu aftur í eðlilegar skorður. Ekki þarf að efast um að til þess ætlast landsmenn af þjóðþingi sínu í þessu grafalvarlega ástandi.