150. löggjafarþing — 87. fundur,  14. apr. 2020.

áhrif Covid-19 faraldursins og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:12]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Yfirstandandi faraldur hefur kostað samfélög manna mikið. 120.000 dauðsföll á heimsvísu eru alvarlegur mannskaði. Það er þó jákvætt að í mörgum löndum, ekki síst hér á landi, virðist heilbrigðisyfirvöldum vera að takast að ráða bug á þessari vondu veiru. Þar ber að þakka ótrúlegri samstöðu meðal almennings, ósérhlífnu fagfólki í framlínunni, sem verður aldrei hægt að þakka með fullnægjandi hætti, en ekki síst þeirri menningu frjálsra og opinna vísinda sem gerir mannkyninu kleift að skilja og deila þekkingu hraðar en nokkru sinni fyrr.

Það er eðlilegt við þessar kringumstæður að fólk velti fyrir sér hvenær verði hægt að koma samfélaginu aftur á ról. Slíkum vangaveltum verður að fylgja skilningur um að heimurinn er búinn að breytast. Það sem mun þykja eðlilegt á næstu árum verður ólíkt því sem þótti eðlilegt fyrir nokkrum mánuðum. Spurningin sem skiptir höfuðmáli á vettvangi stjórnmálanna er á hvaða hátt við viljum að heimurinn hafi breyst og hvað við getum gert til að móta niðurstöðuna. Athugum að afturhvarf í fyrra horf er afturhvarf í streitu og óhamingju, í atvinnuóöryggi, ósjálfbærni, eyðileggingu vistkerfa jarðar og vaxandi misskiptingu, bæði hér á landi og í heiminum öllum. Tækifærið núna er að nýta til góðs samstöðuna sem hefur myndast og þær sérkennilegu kringumstæður, jafn vondar og þær eru. Það snýst ekki bara um að bjarga því gamla heldur einnig um aðgerðir bæði innan lands og á alþjóðavettvangi til að hlúa að hinu nýja.

Mikilvægast er að tryggja grunninnviði samfélagsins og áframhaldandi aðgengi að þeim auðlindum sem við þurfum til að allt gangi vel fyrir sig. Atvinnuleysi er orðið mikið. Mörg fyrirtæki eiga í erfiðleikum og margt fólk fellur á milli skips og bryggju þar sem hvorki atvinnuleysistryggingar né önnur úrræði eiga við. Nú er því góður tími til að íhuga að skipta út þeim kerfum fyrir neikvæð tekjuskattsþrep eða annað form borgaralauna þar sem fólk með tekjur undir tiltekinni viðmiðunarfjárhæð fær mismuninn úr sameiginlegum sjóðum. Þannig búum við til sveigjanlegt öryggisnet fyrir alla. Til að slíkt fyrirkomulag geti gengið snurðulaust fyrir sig þarf að huga að því að hagkerfi landsins verði byggt á viðnámsþrótti, sjálfbærni og velsæld. Ærin ástæða er til að nýta lýðræðislega ferla til að komast að nýrri samfélagssátt um hagkerfi framtíðarinnar. Leita þarf ráða, ekki bara hjá handvöldum hagsmunasamtökum heldur líka hjá almenningi. Fólkið sem situr heima býr að hugmyndum, hefur skoðanir og vill koma að gagni. Nýtum visku fjöldans. Samráðsleysi við Alþingi er óásættanlegt með öllu og þar þarf að bæta verulega úr. Samráðsleysi við þjóðina er einfaldlega léleg nýting á mikilvægum auðlindum. Bakvarðasveit heilbrigðiskerfisins skiptir máli, en hvers vegna er ekki verið að nýta bakvarðasveit lýðveldisins betur?

Herra forseti. Margir hafa á undanförnum vikum upplifað sig stefnulausa og á reki í þessu ástandi. Kannski er einkum tvennt sem veldur. Annars vegar hefur verið vöntun á að fólk sé virkjað til þeirra góðu verka sem það getur tekið að sér og hins vegar erum við sem samfélag líka vön því að vera alltaf í fimmta gír. Það að margt fólk hafi haft tíma til að anda í kviðinn að undanförnu, slaka á og njóta samveru með fjölskyldunni og jafnvel eiga netspjall við gamla vini er allt jákvætt en það er ekki fráleit hugsun að einhverjir vilji hugsanlega halda í einhvern hluta af þessum rólegheitum til frambúðar. Þá skiptir máli að við metum hvort hagkerfið þurfi raunverulega þessa brjálæðislegu offramleiðslu á öllu, hugsanlega útslitnu vinnuafli og mengun sem því öllu fylgir. Með betra verðmætamati gæti verið hægt að horfa í meiri mæli til styttingar vinnuvikunnar þannig að endalaust gróðasjónarmið víki hugsanlega fyrir aðeins jarðbundnari hugmyndum um gott samfélag. Það að koma öllum slíkum hugmyndum fyrir í lögum, stefnu ríkisins o.s.frv. er verkefni okkar á næstunni. Það kallar á endurskoðun á lögum um opinber fjármál, almannatryggingar, atvinnuleysistryggingar o.s.frv. Það kallar líka á frekari fjármögnun í nýsköpun, rannsóknum og þróun í heilbrigðiskerfinu og víðar. Það kallar einnig á að við fáum okkar færasta fólk til að leggja höfuðið í bleyti, allt frá menntamálum upp í skipulagsmál.

Á alþjóðavettvangi er mikilvægt að lönd sem eru að ná tökum á veirunni komi sér upp sameiginlegum viðmiðum um gæði sóttvarna svo hægt sé að blása lífi í alþjóðaviðskipti og frjálsa för fólks af öryggi. Árásir sumra þjóðarleiðtoga á alþjóðakerfið að undanförnu, og þá einkum á Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, er taktleysi sem þarf að vísa til föðurhúsanna. Alþjóðasamvinnu þarf núna að auka og efla þegar mannkynið stendur frammi fyrir sameiginlegri vá. Þröngsýn þjóðernishyggja á ekkert erindi nú frekar en áður.

Forseti. Rauði þráðurinn í því sem ég hef sagt er sá þráður sem Píratar hafa boðað alveg frá stofnun, þ.e. meira lýðræði, meira gagnsæi, meiri samvinna, sveigjanlegra og mannúðlegra hagkerfi, frjálslyndara og mannvænna samfélag. Þetta eru ekki róttækar hugmyndir nema hugsanlega fyrir þá sem vilja fara öfugan veg í átt að gerræðislegu og lokuðu samfélagi. Það er mikil blessun að íslenskt samfélag hefur ekki viljað fara í þá átt þrátt fyrir eðlilegan ótta og þörf á tímabundinni takmörkun á frelsi allra. Ég tel það til marks um öflugt samfélag að óttinn hafi ekki leitt okkur á braut fasismans.

Að lokum vil ég hrósa öllum Íslendingum fyrir að hafa verið sterk í þessu öllu, fyrir að standa saman og sýna hvað í okkur býr. Það á líka við um ríkisstjórnina þótt ég geri þær sjálfsögðu og eðlilegu kröfur um samtal og samvinnu sem ég tíundaði áðan. Vel gert, Ísland! Við höfum sýnt að við getum barist við þessa veiru saman. Sýnum nú að við getum skapað framtíðina saman.