150. löggjafarþing — 87. fundur,  14. apr. 2020.

áhrif Covid-19 faraldursins og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka öllum þeim fjölda einstaklinga í íslensku samfélagi sem hefur núna í næstum þrjá mánuði staðið í framlínunni af mikilli fórnfýsi og fagmennsku, tekið utan um okkur öll hin, slegið upp ákveðnum varnarmúr til að við gætum haldið áfram að lifa og starfa en um leið hefur framlínufólkið okkar sett sig sjálft í lífsógnandi aðstæður til að hlúa að og styðja við veika einstaklinga. Ég vil ekki síður þakka öðrum í samfélaginu sem hafa haldið því gangandi, eins og fólkinu í skólakerfinu og menntakerfinu. Þetta hefur ekki verið auðvelt verkefni en við höfum tekist á við það og náð að leysa það í stórum dráttum. Við höfum gert það með því að gera það saman. Þetta ákall um samstöðu er ekki eitthvert innihaldslaust blaður. Það er einfaldlega lífsnauðsynlegt að við förum að þeim fyrirmælum sem þríeykið okkar hefur sett okkur um tveggja metra regluna, um að sótthreinsa og spritta okkur, um fjarfundi, eða hver þau eru, öll þessi fallegu nýju íslensku orð sem við erum að mynda um þessar stundir, fjarsaumaklúbbarnir og fleira. Þetta er allt saman eitt stórt samstarf og það er á ábyrgð okkar allra.

Vissulega hefur ríkisstjórnin ákveðið, og ég ber virðingu fyrir þeirri afstöðu, að fara ekki leið breiðrar pólitískrar samstöðu, alla vega ekki svipaðar leiðir og nágrannaþjóðir okkar margar hverjar hafa verið að fara. Gott og vel. Við í Viðreisn ætlum alla vega að halda áfram að sýna samstöðu og kalla eftir og ýta áfram mikilvægum málum ríkisstjórnarinnar og reyna að greiða götu þeirra, bæta þau ef þurfa þykir. Mér finnst skipta máli að við sýnum samstöðu við að afgreiða þau mál til viðreisnar Íslands. Leiðsögnin þarf að vera skýr og ég vil að gefnu tilefni segja að misvísandi upplýsingar frá ríkisstjórninni og kapphlaup ráðherra um einhverjar yfirlýsingar um hvenær eigi og hvenær ekki eigi að aflétta ferðabanni eru ekki hjálplegar. Þess vegna vil ég brýna hæstv. forsætisráðherra, sem ég veit að er sterkur talsmaður, til að halda ráðherrum við efnið og vera með svolítinn aga á stjórnarheimilinu.

Við þurfum að hugsa núna út fyrir hið hefðbundna. Það getur verið jafn erfitt að fara út úr þessu ástandi og við fórum inn í það. Þess vegna þarf að sjálfsögðu að hlúa að okkar minnstu bræðrum og systrum. En stærstu viðfangsefni næstu missera og næstu ára verða efnahagsmál og ríkisfjármál. Við verðum að reyna að forðast það að almenningur og fyrirtæki verði með svokallaða hamfaraarfleifð á bakinu, eins og einn ágætur hagfræðingur orðaði það. Við þurfum að huga að því að fara óhefðbundnar leiðir af því að þetta er ekki hefðbundin fjármagnskrísa, gjaldmiðilskrísa eða skuldakreppa, heldur er þetta eitthvað allt annað, eitthvað sem við höfum aldrei upplifað áður. Við þurfum t.d. að huga að því hvort fastur kostnaður fyrirtækja verði greiddur tímabundið.

Vonandi hefst viðreisnin í haust, eftir þetta tímabundna ástand og þá skiptir gríðarlega miklu máli að fyrirtækin séu í stakk búin til að taka þátt í fjárfestingum. Við megum ekki binda þau á skuldaklafa þannig að þau verði ekki í stakk búin til að fara með okkur í þetta mikilvæga ferðalag. Það er frábært að fara í mannaflsfrekar framkvæmdir og við eigum auðvitað að fara í Reykjanesbrautina núna þegar enginn túrismi er, reyna að nýta það svigrúm. En við verðum að leggja áherslu á litlu fyrirtækin. Við verðum að leggja áherslu á hugvitið, mannauðinn, tryggja menntunina og menninguna þannig að við komumst áfram, ekki bara fara í sjávarútveginn, orkufrekan iðnað og byggja upp ferðamannaiðnaðinn aftur heldur byggja á hugviti. Ég fagna því ef ég greindi það áðan að ríkisstjórnin ætli að taka undir tillögur okkar í stjórnarandstöðunni um að líta sérstaklega til lítilla fyrirtækja og ekki síst á sviði nýsköpunar og rannsókna, tryggja endurgreiðsluhlutfallið, tryggja það að við förum raunverulega út með líflínu til sprotafyrirtækjanna í landinu.

Við verðum líka að þora að hugsa til lengri tíma hvernig samfélag við viljum sjá hér á landi eftir að veiran hefur látið sig hverfa, hvernig við ætlum að tryggja rækilega viðspyrnu fyrir efnahagslífið, fólkið okkar og heimilin. Gegnsæið er hér algert lykilatriði. Það verður að vera leiðarljós stjórnvalda, strax þegar ríkisvaldið gengur með fordæmalausum hætti inn í atvinnu- og viðskiptalíf, að gegnsæi ríki. Við þurfum að vera skýr á þessum tímum þegar einhverjir ætla hugsanlega að nýta þessa viðkvæmu stöðu efnahagslífsins á næstu vikum og mánuðum. Það þarf að vera alveg skýrt frá upphafi hvernig leikreglurnar verða við endurreisn. (Forseti hringir.) — Ég mun halda aðeins áfram og ganga á tíma næsta.

Það þarf að vera alveg skýrt frá upphafi hvernig leikreglurnar verða við endurreisn atvinnulífsins, að sömu leikreglur gildi fyrir alla, ekki bara suma, því að lýðræðið og aðhaldið sem því fylgir fer ekki í sóttkví. Við í Viðreisn tökum hlutverk okkar í stjórnarandstöðu alvarlega þannig að við gerum ríkar kröfur til ríkisstjórnarinnar um að farið verði í afgerandi aðgerðir fyrir fyrirtæki og atvinnulífið en samhliða er krafan um gegnsæi og samfélagslega ábyrgð fyrirtækja afgerandi. Hverjir fá hvað, á hvaða forsendum, af hverju, eftir hvaða reglum, engu verði leynt, algjört gegnsæi. Ekki gefa afslátt af reglum um heilbrigða samkeppni. Ekki veikja Samkeppniseftirlitið, ekki búa svigrúm fyrir tilhæfulaust skjól eða leynd í einhverju sem heita viðkvæmar upplýsingar. Það eina sem er viðkvæmt og það eina sem má alls ekki í þessari fordæmalausu stöðu er að almannahagsmunir verði látnir víkja fyrir sérhagsmunum. Almannahagsmunir verða að ráða, alltaf, alls staðar, í þessum aðstæðum.