150. löggjafarþing — 87. fundur,  14. apr. 2020.

áhrif Covid-19 faraldursins og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:48]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Frú forseti. Líkt og í kjölfar efnahagshrunsins 2008 erum við að upplifa viðmiðaskipti. Þetta sjáum við t.d. í því að samfélagið er að læra að meta störf þeirra stóru stétta sem eru ómissandi til að halda daglegu lífi gangandi. Þar á ég ekki bara við það góða starf sem heilbrigðisstarfsfólk og kennarar eru að vinna, heldur ótal marga hópa oft láglaunafólks, fólksins sem heldur frístundaheimilum gangandi, fólksins sem hirðir sorpið, sem keyrir strætó, sem mannar búðarkassana, en sjaldnast fá þessir hópar að finna fyrir mikilvægi starfa sinna í launaumslaginu. Því þarf að breyta.

Þær aðgerðir sem stjórnvöld ráðast í þessa dagana munu líka breyta því hvað við teljum almennt gerlegt. Í september sl. þótti t.d. fjórum ráðherrum ríkisstjórnarinnar ekki hægt að skrifa undir kröfu loftslagsverkfallsins um að verja 2,5% af þjóðarframleiðslu til loftslagsmála, sem þó er í takt við áætlun milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál. Aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda er upp á 0,05% af þjóðarframleiðslu, svo að stökk upp í 2,5% hefur væntanlega verið af slíkri stærðargráðu að ráðherrarnir gátu varla ímyndað sér það. Það jafngildir 70 milljörðum kr. sem vill reyndar svo til að er nánast nákvæmlega sama upphæð og opinber framlög í þeim efnahagsaðgerðum sem ríkisstjórnin hefur þegar kynnt vegna Covid-19 nú fyrir tæpum mánuði. Kannski voru kröfur loftslagsverkfallsins ekki svo út úr korti þegar við skoðum viðbrögð við neyðarástandi þegar upp er staðið. Þá skulum við líka muna það næst þegar stefnir í gráan dag vegna loftmengunar á höfuðborgarsvæðinu að við eigum önnur ráð en að halda leikskólabörnum innan dyra. Undanfarið hefur það sýnt sig að stór hluti vinnandi fólks getur sinnt störfum sínum tímabundið í gegnum fjarvinnu. Þetta hefði verið erfitt að ímynda sér fyrir stuttu síðan en verður vonandi hægt að virkja næst þegar spáir gráum degi.

Við uppbyggingu samfélagsins á næstu misserum er hægt að búa okkur undir framtíð sem við vitum að einkennist af miklum breytingum á vinnumarkaði og glímunni við loftslagsbreytingar. Það þarf að gæta þess að hugsa græna uppbyggingu ekki of mikið á gráum forsendum sem gamaldags verklegar framkvæmdir heldur sem fjárfestingu í félagslegum innviðum, í þekkingu og rannsóknum, í heilbrigðiskerfi, menntakerfi og menningu. Það stuðningsnet sem við búum öll að og reynt hefur á undanfarnar vikur er grundvöllur þess að verðmætasköpun geti yfir höfuð átt sér stað í samfélaginu. Markviss og metnaðarfull viðbrögð við Covid-19 sýna okkur að mörk hins mögulega þegar kemur að jöfnuði, velferð og velmegun eru ekki einhverjir harðir veggir heldur einungis viðmið sem við setjum okkur sjálf. Það eru viðmið sem við sjálf getum breytt.