150. löggjafarþing — 87. fundur,  14. apr. 2020.

áhrif Covid-19 faraldursins og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:51]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Í þeim fordæmalausu aðstæðum sem við stöndum frammi fyrir hefur þingflokkur Miðflokksins stutt allar aðgerðir stjórnvalda sem miða að því að verja fyrirtæki og atvinnulífið almennt. En við höfum einnig hvatt til þess að gengið verði lengra og það eins fljótt og verða má, sem við teljum mikilvægt því að aðgerðir sem koma of seint geta orðið miklum mun dýrkeyptari en það fjármagn sem fer í að koma í veg fyrir kollsteypur í atvinnulífinu. Frestur er á illu bestur segir í gömlum málshætti og margar þær aðgerðir sem gripið hefur verið til taka mið af því. Það má vera að í mörgum tilfellum geti frestur komið sér vel en þá má einnig vera ljóst að mörg fyrirtæki verða ekki betur í stakk búin eftir þrjá eða sex mánuði til að gera skil á sköttum eða gjöldum. Miðflokkurinn hefur þannig talað fyrir skjótum, einföldum og almennum aðgerðum og talið nauðsynlegt að skattar á fyrirtæki væru lækkaðir tímabundið, einstaka gjalddagar væru felldir niður á meðan ástandið er hvað erfiðast og hef ég þar nefnt tryggingagjaldið sérstaklega. Hér verða sveitarfélögin heldur ekki undanskilin. Þau verða að huga að því að lækka fasteignagjöld á fyrirtæki eða fella þar niður einstaka gjalddaga.

Herra forseti. Ég eins og fleiri fagna nýgerðum kjarasamningum við hjúkrunarfræðinga sem hafa að undanförnu staðið fremst í víglínunni. Það minnir okkur á að lögreglumenn hafa um langt skeið verið samningslausir og hvorki gengið né rekið í samningaviðræðum þeirra við ríkisvaldið, kannski vegna þess að þar er um stétt að ræða sem engan verkfallsrétt hefur. Minnug framgöngu þeirra í síðustu kreppu væri kannski ekki of stórmannlegt af ríkisvaldinu að taka hendur úr vösum og semja við stétt lögreglumanna.

Ég velti einnig fyrir mér hagsmunum fjölmennra hópa einyrkja, til að mynda leigubifreiðastjóra, leiðsögumanna og hárgreiðslufólks, hvort hagsmunir þessara hópa hafi verið nógsamlega tryggðir. Það væri gagnlegt að heyra hæstv. forsætisráðherra útskýra hvernig koma eigi betur til móts við þá mikilvægu hópa.

Herra forseti. Nú þegar öflug efnahagskerfi heimsins mega síns lítið vegna veirufaraldursins og riða nánast til falls leiða margir hugann að því hvernig veröldin mun líta út að faraldri loknum. Að mínu mati er núna tími til að huga að því að við verðum sjálfum okkur sem mest næg um helstu nauðsynjar. Við getum ekki treyst á að hingað sé alltaf og ávallt unnt að flytja allar okkar helstu nauðsynjar og neysluvörur. Sú skoðun á öflugri innlendri framleiðslu, sem vex mjög ásmegin um þessar mundir, hefur einnig þann kost að vera miklum mun umhverfisvænni en flutningar landa og heimsálfa á milli. Ég tel að hluti af þeim fjármunum sem ríkisvaldið notar til að verja atvinnulífið nú um stundir eigi að ganga til þess að efla innlendan landbúnað, garðyrkju og ýmsan smáiðnað.