150. löggjafarþing — 87. fundur,  14. apr. 2020.

áhrif Covid-19 faraldursins og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:00]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Forseti. Það gengur vel að kveða niður mestu ógnina sem er heilbrigðisógnin, að sumu leyti vonum framar, a.m.k. í bili. Það er gríðarlega mikilvægt. Mögulega erum við að sjá einn besta árangur heims í baráttunni gegn veirunni en við getum að sjálfsögðu ekki barið okkur á brjóst því að enn getur brugðið til beggja vona og faraldurinn getur blossað upp aftur.

Mig langar að segja hér að ég er stolt af því hvernig íslenskt samfélag hefur tekið þessu risastóra verkefni fram til þessa. Landsmenn eiga hrós skilið fyrir að sýna þrautseigju og leggja sitt af mörkum til að fækka smitum. Þetta hefur tekið á, ekki síst varðandi skert samskipti við aldraða og veika aðstandendur, jafnvel við hinstu kveðju. Það er mikil óvissa um framhaldið, bæði hvað varðar þróun faraldursins hér á landi en líka næstu skref stjórnvalda í öðrum löndum. Ákvarðanir þeirra, t.d. um samgönguhindranir, munu hafa mjög mikla þýðingu fyrir okkur. Sú óvissa er hvað mest í ferðaþjónustu, einum af allra mikilvægustu atvinnuvegum okkar, en hún hefur einnig áhrif á flesta, ef ekki alla, aðra starfsemi. Þrátt fyrir mikla óvissu um framhaldið er hægt að slá því föstu að efnahagslegu áhrifin verða miklu meiri en vonir stóðu til í fyrstu. Umtalsverður hluti atvinnulífsins hefur orðið fyrir gífurlegu tekjufalli, jafnvel nær algjöru í einhverjum tilvikum. Kannanir benda til þess að yfir 40% allra fyrirtækja í landinu sjái fram á að tekjur á öðrum ársfjórðungi minnki um meira en 50% samanborið við sama ársfjórðung í fyrra. Þessi svör fyrirtækjanna endurspegla þær horfur að nú er útlit fyrir að hin efnahagslegu áhrif muni vara töluvert lengur en áætlað var í upphafi.

Það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað en efnahagslegar hamfarir og sama eða svipuð staða er uppi víðs vegar um heiminn. Tímaritið The Economist spáði því fyrir næstum þremur vikum að hagvöxtur á þessu ári yrði neikvæður um 7% á Ítalíu, tæp 7% í Þýskalandi, 5% í Bretlandi og 5% í Frakklandi. Það má eiginlega slá því föstu að horfurnar hafi versnað síðan sú spá var gerð. Fyrstu efnahagslegu aðgerðir íslenskra stjórnvalda voru skynsamlegar og skiptu miklu máli. Reynslan hefur sýnt það. Könnun meðal aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins sýnir að stærstu aðgerðir stjórnvalda hafa nýst næstum 80% fyrirtækja, en það var strax boðað að mögulega þyrfti að gera meira og að það yrði hiklaust gert. Þau skref eru núna í mótun en það má alveg segja að við séum komin á aðra brautarteina en í fyrstu. Það mun þurfa að koma enn sterkar til móts við fyrirtækin til að fleyta þeim yfir þetta tímabil og það mun þurfa að gera enn meira til að tryggja kröftuga viðspyrnu og nýja sókn þegar þessari hríð slotar.

Við höfum nú þegar bætt 700 milljónum í Tækniþróunarsjóð og mér finnst það sýna að þingið og stjórnvöld hafa fullan skilning á því að viðspyrnan er ekki síst undir því komin að gefa hugvitinu enn meira súrefni til að búa til nýjar lausnir, ný verðmæti og ný störf.

Það sem skiptir máli er að við ætlum og munum byggja upp ferðaþjónustu að nýju. Ég segi að framtíðin er björt fyrir íslenska ferðaþjónustu, en við munum þurfa að ganga í gegnum erfiða tíma þangað til sú framtíð birtist okkur. Við horfum framan í breyttan heim. Við vitum ekki nákvæmlega hvernig hann mun líta út. Margt gott mun gerast í kjölfarið en annað er verra. Einangrunarhyggja er eitt af því sem ég hef áhyggjur af og er vont. Efnahagsáföll hafa skaðleg áhrif, sérstaklega á þá sem lakast standa. Það góða sem kemur út úr þessu, og ég vona að við förum ekki til baka þegar yfir lýkur, er til að mynda nýting á tækni, hraðinn sem er núna á því að finna nýjar lausnir, nýta nýja tækni og búa til ný verðmæti. Við höfum hreyft okkur hraðar síðustu vikur á ýmsum sviðum en við höfum gert mörg misseri þar á undan. Nýsköpun er ekki varaafl sem við grípum til núna þegar illa árar heldur er hún einfaldlega forsenda framfara. Hún á heima alls staðar, hún á heima í ferðaþjónustu, iðnaði, matvælaframleiðslu, annarri þjónustu, heilbrigðistækni, velferðarþjónustu, menntamálum, landbúnaði, alls staðar. Hugvitið þarf hvorki að vernda né spara, því eru einfaldlega engin takmörk sett.

Íslenskt samfélag er sterkt samfélag. Ég held að eitt af því sem muni koma út úr þessu er að við munum endurskilgreina hvað sterkt samfélag er. Samfélag sem er með sterka innviði, sterkt velferðarkerfi og öflugt atvinnulíf er sterkt samfélag. Samfélag sem getur haldið sér sjálfu gangandi á sama tíma og hægt er að takast á við svona ógn er sterkt samfélag. Samfélag sem treystir á bestu upplýsingar og hræðist þær ekki heldur stendur ofan á þeim er sterkt samfélag.

Við munum þurfa að ganga í gegnum erfiða tíma, taka sársaukafullar ákvarðanir og verða fyrir vonbrigðum. Við munum ekki gera allt rétt en við munum komast í gegnum þetta tímabil. Við ætlum að nýta tímann vel. Við þurfum að vera með augun á tækifærunum og á framtíðinni á sama tíma og við gerum það sem er skynsamlegt í erfiðu björgunarstarfi.

Það skiptir máli að gleyma því ekki að tækifærin eru víða. Við erum lánsamt samfélag þrátt fyrir allt og við höfum alla burði til að gera vel og nýta tímann vel. Við komumst í gegnum það saman og úr þessu getur ýmislegt gott komið líka.