150. löggjafarþing — 87. fundur,  14. apr. 2020.

áhrif Covid-19 faraldursins og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:06]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Nú er tæpur mánuður síðan starfsemi Alþingis var skert eins mikið og mögulegt er vegna heimsfaraldurs Covid-19. Nefndastarf Alþingis hefur verið takmarkað við brýnustu viðbrögð við afleiðingum faraldursins og tæpar tvær vikur eru liðnar frá síðasta þingfundi. Hæstv. forseti hefur lýst því við fjölmiðla að hann viti ekki til þess að viðlíka takmarkanir hafi verið settar á starfsemi þingsins í sögu Alþingis. Samstaða hefur verið um þessar aðgerðir hingað til en hún fékkst með góðri trú á að ríkisstjórn sem myndaði stjórnarsáttmála um valdeflingu Alþingis myndi hafa samráð við minni hlutann, leita eftir góðum hugmyndum og leyfa okkur að fylgjast vel með aðgerðum sínum og áætlunum.

Það eru því djúp vonbrigði að hæstv. forsætisráðherra hafi ítrekað hafnað útréttri hendi stjórnarandstöðunnar. Þegar forsætisráðherra er spurð hvort hún ætti ekki að hafa meira samráð við stjórnarandstöðuna vísar hún í að samstarfið gangi vel í nefndum þingsins. Nefndastarf er hins vegar ekki samráð við stjórnarandstöðuna. Það er sem betur fer lýðræðisleg stjórnskipan landsins að þingmál verði að fara í gegnum fagnefndir þingsins þar sem fulltrúar allra flokka hafa aðkomu. Hæstv. forsætisráðherra veit betur en að jafna lögfestum og mikilvægum lýðræðislegum ferlum við samráð og samstarf við stjórnarandstöðuna. Vettvangur fyrir aðhald stjórnarandstöðunnar er nefnilega svo gott sem horfinn í því alþjóðlega neyðarástandi sem við búum nú við og því er mikilvægt að hafa leiðtoga sem getur sameinað alla flokka í viðbrögðum sínum og sem hleypir öllum að borðinu.

Hæstv. forsætisráðherra þarf ekki að leita langt til að finna fyrirmyndir í lýðræðislegu samstarfi á neyðartímum. Flokkssystir hennar og flokkssystir mín mynda ásamt fleirum meiri hluta í Ráðhúsinu. Þar hafa öll viðbrögð og allar áætlanir verið unnar í góðu samstarfi allra flokka sem standa sameiginlega að tillögunum. Þau sjá að það er sama hvaðan góðar hugmyndir koma þegar á reynir. Hvernig stendur á því að forsætisráðherra vill ekki fara sömu leið og nýta sér hugvit og þekkingu alls þingsins? Ég er ekki að spyrja fyrir mig, ég er að spyrja fyrir þær þúsundir kjósenda sem treystu mér og öðrum þingmönnum stjórnarandstöðunnar til að starfa á Alþingi, til að fylgjast með ríkisstjórn sem vinnur nú að mestu í lokuðum herbergjum og vísar í lágmarkslýðræðislega ferla um nefndastarf til að skreyta sig stolnum fjöðrum samráðs. Það er ekki ásættanlegt, forseti.

Hæstv. forsætisráðherra hvatti rétt í þessu vanþakkláta útgerðarmenn til að hætta við að heimta meira úr ríkissjóði en gjafakvóti ríkisstjórnarinnar færði þeim í formi makríls um árið. Ég vil aftur á móti hvetja hæstv. ráðherra til að hætta að gefa veiðiheimildir útgerðum sem augljóslega kunna ekki að meta gjafmildina, afturkalla þær jafnvel í skrefum eins og við Píratar þreytumst ekki á að kalla eftir.

Forseti. Nú er vissulega tími fyrir samstöðu eins og forsætisráðherra hefur endurtekið kallað eftir. Það er því grátlegt að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafi gert það að forgangsatriði að gera stjórnvöldum enn þá auðveldara fyrir að reka óléttar konur og varnarlaus börn á flótta til Grikklands, Ítalíu, Ungverjalands og annarra vanbúinna landa, algjörlega burt séð frá aðstæðum hvers og eins. Þetta slær nýtt met í mannvonsku, sjálfhverfu og ábyrgðarleysi og mér finnst mjög dapurlegt að það eigi að herða enn frekar mannfjandsamlega stefnu Íslands gagnvart flóttamönnum akkúrat núna þegar þeir þurfa hvað mest á okkur að halda.

Um þessar mundir stendur ríkisstjórnin í aðgerðum sem fela í sér gríðarleg útlát á almannafé og eftirlitshlutverk Alþingis er í lágmarki. Bönkunum hefur verið gefinn laus taumur gagnvart líflínum til fyrirtækja í þröngri stöðu og sporin hræða. Það er ekki langt síðan síðasta uppgjör átti sér stað og það sagði ekki fagra sögu um jafnrétti og réttlæti þegar kom að því hvaða fyrirtæki fengju að lifa og hvaða fyrirtæki fengju það ekki. En þá var a.m.k. starfandi þing. Þá höfðu fulltrúar allra flokka reglulega aðkomu að málum ríkisstjórnarinnar, þau höfðu aðgang að upplýsingum og þau höfðu aðgang að þinginu. Forsætisráðherra sem var í ríkisstjórn þá hlýtur að sjá þann grundvallaraðstöðumun sem stjórnarandstaðan býr nú við, en því miður heldur hún stjórnarandstöðunni fjarri allri áætlunargerð í skjóli neyðarástands, stikkfrí frá lýðræðislegu aðhaldi og eftirliti.

Það er ekki ásættanlegt, herra forseti. Þessi ríkisstjórn hlýtur að geta gert betur.