150. löggjafarþing — 87. fundur,  14. apr. 2020.

framboð og kjör forseta Íslands og kosningar til Alþingis .

719. mál
[15:39]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, eins og gjarnan er sagt þegar fólk tekur til máls. En þar sem fulltrúi okkar Vinstri grænna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er ekki í húsi langar mig rétt að rifja upp og minna á það að Vinstri græn hafa einmitt rætt töluvert í gegnum tíðina mikilvægi þess að eiga örugg, opinber skilríki, það sé ekki bara í höndum einkaframtaksins að bjóða upp á slíkt.

Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé hefur lagt fram frá því 2017 þingsályktunartillögur þess efnis að ráðherra verði falið að skipa starfshóp þar sem gerðar verða tillögur að útgáfu slíkra opinberra skilríkja og hvað það myndi kosta. Ríkið gefur út ökuskírteini, vegabréf og annað slíkt. Það hefur sannarlega komið í ljós undanfarið að þörf er á því að eiga örugg, opinber rafræn skilríki að okkar mati. Við erum líka með heimild í fjárlögum til að kaupa Auðkenni sem gefur út rafræn skilríki. Það væri áhugavert að heyra, því að ráðherra stígur hér í pontu á eftir, hvort hún telur að það sé eitthvað sem við eigum að gera, að nýta okkur þennan rétt.

Ég tek undir það sem kemur fram í þingsályktunartillögunni sem hv. þingmaður flytur ásamt öðrum í Íslandsdeild Norðurlandaráðs, hún er svolítið í samræmi við það sem hefur verið rætt í ráðinu, og bið ráðherra að velta því kannski upp með okkur hvort hún telji að þetta sé eitthvað sem komi til greina. Í tillögunni er vísað til starfa sérfræðingahóps sem vinnur að samhæfðum norrænum skilríkjum á vegum norrænu ráðherranefndarinnar og hér er lagt til að starfshópurinn taki mið af þeirri vinnu. Mér finnst einboðið í ljósi stöðunnar sem við erum í núna að við gerum þetta, ekki bara vegna forsetakosninganna sem fram undan eru heldur til þess að við eigum og getum farið með örugg skilríki af hálfu hins opinbera, eins og ég tel að tilefni hafi gefið til kynna að við þurfum að eiga.

Virðulegur forseti. Ég ætlaði bara að koma þessu að. Mér finnst þetta mikilvægt því að þrátt fyrir að Íslykillinn sé ágætur í sjálfu sér og teljist brúklegur, eins og kom fram hjá hv. þingmanni hér á undan mér, t.d. í sveitarstjórnarkosningum, þá er það auðvitað bara þar. Við notum Auðkennislykil í símanum okkar og notum hann miklu víðar og á miklu almennari hátt en Íslykilinn. Ég vildi bara árétta þetta af því að ég veit að það fór svolítið fyrir þessari umræðu í nefndinni.