150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

nýr aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar.

[15:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við í Viðreisn höfum lagt skýra áherslu á að styðja við þau mál ríkisstjórnarinnar sem auka og auðvelda viðspyrnu efnahags og atvinnulífs, heimila og fyrirtækja. Við munum að sjálfsögðu halda áfram þeim vinnubrögðum að koma með tillögur að úrbótum, vera með málefnalegt aðhald og spyrja spurninga eins og lýðræðislegt hlutverk okkar segir til um. Á morgun mun ríkisstjórnin kynna nýjan efnahagspakka og nýjan aðgerðapakka og ég fagna því sérstaklega af því að nú er liðinn tæpur mánuður síðan síðasti pakki var kynntur. Það er langur tími á svona óvissutímum. Mig langar að fá fram hjá hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki verði örugglega hugsað til lítilla fyrirtækja, til að mynda í formi þess að fella tímabundið niður tryggingagjaldið, eins og við í stjórnarandstöðunni lögðum til á sínum tíma. Ég vil sérstaklega inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hugað verði að því að endurgreiðsluhlutfall til nýsköpunar, rannsókna og þróunar verði hækkað í þessum aðgerðapakka og líka hvort ráðherra sjái fyrir sér að við hugum að breytingum á hlutastarfaleiðinni, m.a. til að koma til móts við sjónarmið nýsköpunarfyrirtækja.

Ég fagna því sem ég hjó eftir hjá ráðherra, að hugað verði að einyrkjum. Erum við þá að tala um að það verði stuðningur sérstaklega til lítilla fyrirtækja og einyrkja sem þurftu að loka starfsemi sinni tímabundið? Síðast en ekki síst vil ég spyrja ráðherra hvort í pakkanum á morgun verði ekki örugglega stuðningur í einhverju formi til fjölmiðla. Við gerum okkur grein fyrir því að ríkisstjórnin er ósammála um stuðning við fjölmiðlafrumvarp hæstv. menntamálaráðherra. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að fjölmiðlar þurfa núna, eins og önnur fyrirtæki, á tímabundnum aðgerðum að halda.

Ég spyr: Mun pakkinn sem verður kynntur á morgun innihalda þær tillögur?