150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

launahækkun þingmanna og ráðherra.

[15:10]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Okkur verður tíðrætt um samstöðu þessa dagana. Hæstv. forsætisráðherra talaði um samstöðu þegar hún hvatti fyrirtæki í sjávarútvegi til að falla frá milljarðakröfum sínum á ríkissjóð vegna þess að, með leyfi forseta:

„Það er ekki góð leið til að efla samstöðu í samfélaginu. Það er ekki góð leið til að vera á sama báti í gegnum það ferðalag sem við erum stödd í. Þó að ég telji að ríkið hafi góðan málstað í þessu máli finnst mér eðlilegt að þessi fyrirtæki íhugi að draga kröfurnar til baka. Nú reynir nefnilega á ábyrgð okkar allra, hvort sem við erum að reka fyrirtæki, erum launafólk, þingmenn eða hver sem við erum. Fram undan eru brattar brekkur, ekki bara hvað varðar takmarkanir á samkomum, það eru brattir tímar fram undan í efnahagslífinu.“

Forseti. Ég er sammála hæstv. forsætisráðherra og vil því ræða ábyrgð og samstöðu ráðherra og þingmanna með almenningi við hæstv. fjármálaráðherra. Gríðarlegar efnahagsþrengingar blasa við og valda mörgum miklum tekjumissi og jafnvel atvinnumissi en á sama tíma stendur til að framkvæma launahækkun þingmanna og ráðherra um næstu mánaðamót. Sú framkvæmd mun fela í sér afturvirkar greiðslur fyrir fjóra mánuði ásamt því að laun ráðherra hækka um rúm 100.000 á mánuði, laun forsætisráðherra um 130.000 og laun okkar þingmanna um tæp 70.000. Til samanburðar má nefna að heildarlaunahækkun hjúkrunarfræðinga næstu fjögur ár, verði samningur þeirra við ríkið samþykktur, er því næst sú sama og ein hækkun á þingfararkaupi. Launahækkun hæstv. forsætisráðherra er næstum tvöföld sú upphæð. Ég segi eins og hæstv. forsætisráðherra: Það er ekki góð leið til að efla samstöðu í samfélaginu. Það er ekki góð leið til að vera á sama báti í gegnum það ferðalag sem við erum stödd í.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort honum finnist ekki eðlileg og sjálfsögð krafa að þingmenn og ráðherrar falli frá þessum launahækkunum sínum.