150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

álverið í Straumsvík.

[15:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Það hefur ítrekað komið fram í þessum ræðustól og annars staðar að við lifum að sjálfsögðu á mjög sérkennilegum tímum þessa dagana. Ég hugsa að allir þingmenn fái í pósthólf sín óskir eða ábendingar eða jafnvel ákall frá fyrirtækjum úti um allan bæ sem lýsa þeirri stöðu sem þau eru í og víst er að heil atvinnugrein, ferðaþjónustan, er nánast að hruni komin. En við megum samt ekki hegða okkur þannig eða grípa til ráðstafana eða grípa ekki til ráðstafana sem verða til þess að jafnvel aðrar atvinnugreinar eða önnur fyrirtæki lenda í vanda. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um annað vandamál sem vofir yfir okkur og ég hef áhyggjur af og ég veit að margir hafa áhyggjur af, en það er viðræðuleysi milli Landsvirkjunar og Rio Tinto Alcan, Ísals, ætla ég að leyfa mér að kalla það hér eftir, um stöðu þess fyrirtækis. Við vitum að það fyrirtæki hefur átt í verulegum rekstrarvanda í langan tíma. Það eru hundruð beinna starfa sem tengjast þessu fyrirtæki, örugglega þúsundir starfa í húfi þegar allt er talið. En einhvern veginn er mikil óvissa, bæði fyrir allt þetta starfsfólk, varðandi öll þessi störf, varðandi sveitarfélögin sem hlut eiga að máli. Mig langar einfaldlega að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort þessi mál hafa komið inn á borð hans, hvort ráðherrann hafi beitt sér eitthvað í þessu máli, hvort ráðuneytið hafi komið að viðræðum milli Landsvirkjunar og Ísals og þá um leið hvort það standi til að beita sér í málinu með einhverjum hætti. Það er útlit fyrir, töluverðar líkur á því virðist vera, að þetta fyrirtæki fari í fyrsta lagi í mál gegn fyrirtækinu Landsvirkjun og í öðru lagi er veruleg hætta á því að það hreinlega loki eða byrji að draga úr starfsemi sinni hér í sumar.