150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

álverið í Straumsvík.

[15:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er snert á máli sem er alveg fullt tilefni í sérstaka umræðu í þinginu. Ég vil byrja á því að segja að ég hef á undanförnum mánuðum haft töluvert miklar áhyggjur af öllum orkufrekum iðnaði á Íslandi og m.a. af því tilefni gerðum við hæstv. iðnaðarráðherra okkur ferð til helstu fyrirtækja á þessu sviði. Við fórum bæði inn til Straumsvíkur og upp á Grundartanga og töluðum við fyrirtækin þar. Við fórum líka austur á firði og settust niður með Fjarðaáli og spurðum spurninga sem lúta að þeirra almenna rekstrarumhverfi um þessar mundir. Það er alveg ljóst að mjög hefur þrengt að rekstrarskilyrðum þeirra á alþjóðlegum mörkuðum. Má kannski segja að meginvandi allra þessara fyrirtækja sé að hinar ytri aðstæður hafi snúist þeim mjög í óhag.

Spurt er sérstaklega að því hvort ég sé inni í viðræðum Rio Tinto Alcan við Landsvirkjun, og þá get ég sagt já, ég hef átt fundi með Rio Tinto sem óskuðu sérstaklega eftir fundi með mér. Allir slíkir fundir fara fram undir þeim formerkjum að yfir Landsvirkjun er sjálfstæð stjórn og um hana gildir eigendastefna og stjórnin er sjálfstæð og stjórnendur félagsins í störfum sínum. Mér finnst hins vegar meira en sjálfsagt að hlusta eftir áhyggjum þeirra fyrirtækja sem eru með starfsemi í landinu, hvers eðlis sem slík erindi eru.

Allt sem lýtur að raforkusamningum við Landsvirkjun, um það verður að eiga sér stað samtal í milliliðalausum viðræðum milli fyrirtækjanna og ég hef haft upplýsingar frá Landsvirkjun um að þær viðræður séu í gangi. Ég ætla því að leyfa mér að binda vonir við að þessi mikilvægi viðskiptavinur Landsvirkjunar geti fengið í samskiptum við Landsvirkjun lausn á helstu áhyggjuefnum sínum sem ég er ekki inni í í neinum smáatriðum.