150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

álverið í Straumsvík.

[15:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að greina frá því að ég átti ásamt iðnaðarráðherra fund með forstjóra og stjórnarformanni. Landsvirkjunar í síðustu viku þar sem við höfðum óskað sérstaklega eftir mati Landsvirkjunar almennt á rekstrarskilyrðum viðskiptavina Landsvirkjunar. Ég verð hins vegar að lýsa mig ósammála hv. þingmanni þegar kemur að því að stjórnvöld geti beitt sér gagnvart fyrirtækinu vegna þess að því eru mjög þröng skilyrði sett þar sem Landsvirkjun er fyrirtæki sem starfar á samkeppnismarkaði. Það er hins vegar ofboðslega mikilvægt að við í þinginu og stjórnvöld almennt séum vel upplýst um stöðu þessa mikilvæga iðnaðar í landinu sem er orkufrekur iðnaður. Hér er verið að snúa raforku í gríðarlega mikil verðmæti fyrir þjóðarbúið og eins og hv. þingmaður nefndi eru hundruð og þegar saman er tekið þúsundir starfa undir og miklir hagsmunir þeirra sveitarfélaga sem eiga í hlut. Ég deili miklum áhyggjum af því hversu mjög vindar hafa snúist gegn þessari starfsemi (Forseti hringir.) í landinu á undanförnum mánuðum út af þróun á alþjóðamörkuðum. Við munum fylgjast náið með því hvernig samskipti þessara fyrirtækja við Landsvirkjun og stjórnvöld almennt þróast á komandi mánuðum.