150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

aukin fjölbreytni atvinnulífsins.

[15:41]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Stutta svarið er: Jú, ég er hjartanlega sammála því. Lengra svarið er: Ég er aðeins ósammála hv. þingmanni um að lítið hafi gerst. Við erum búin að fara í meiri háttar aðgerðir hvað varðar umhverfi til fjárfestinga, umhverfi til frumkvöðlastarfsemi, umhverfi til nýsköpunar undanfarin ár sem hafa skipt miklu. Sem betur fer fá fyrirtæki hér, sprotar, fjárfestingu að utan sem hefur skipt mjög miklu máli. Við sjáum í þessu ástandi eitt af því jákvæða sem gerist þegar við eigum á einu augabragði engra annarra kosta völ en að stökkva af stað og breyta um hegðun þegar breyting er að verða á nýtingu á tækni sem hefur tekið okkur allt of langan tíma að tileinka okkur. Ég held að heilbrigðiskerfið muni njóta góðs af því. Við erum með fjöldann allan af fyrirtækjum sem eru með heilbrigðislausnir, tæknilausnir, hvort sem það er fyrir heilbrigðiskerfið eða velferðarkerfið, sem geta skipt sköpum fyrir okkar þungu kerfi sem munu kosta meira og meira til framtíðar og sem útflutningsvara sem býr einmitt til gjaldeyristekjur. Við höfum nú þegar dæmi í þessu Covid-ástandi um að hugvit Íslendinga er að breyta heiminum.

Við höfum gefið út nýsköpunarstefnu. Við erum með frumvarp sem ég fæ vonandi að mæla fyrir fljótlega um Kríu sem er lykilforsenda í að þroska umhverfið enn hraðar. Ég er alveg sammála því að við munum þurfa að hreyfa okkur enn hraðar. Ég trúi því raunverulega, og ekki af því að ég sé svo bjartsýn heldur af því að ég sé það. Ég er alveg handviss um að við séum að horfa framan í meiri háttar grósku og breytingar í nýsköpunar- og frumkvöðlaumhverfinu á Íslandi, okkur öllum til hagsbóta, til að reka samfélag okkar betur, til að vera með spennandi störf, vonandi til að laða (Forseti hringir.) erlenda sérfræðinga hingað og til að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar.