150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[16:18]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Þá þarf að laga þetta með fyrirtökuna. Í nauðungarsölulögum er alltaf talað um fyrirtökur, líka í seinna uppboði, og þá verður að laga það. Þetta var enginn misskilningur. Hæstv. ráðherra sagði í ræðustól áðan að þetta ætti bara við um fyrstu fyrirtöku og þá verður það líka að vera skilgreint í lögunum. (Gripið fram í.) Það verður að laga textann, (Gripið fram í.) hæstv. ráðherra.

Hún talar einnig um að það eigi að einfalda kerfið fyrir almenning. Það kemur ekki til greina af minni hálfu að samþykkja breytingar sem eru til þess að liðka fyrir eða auðvelda lánastofnunum að sækja á heimili landsmanna eins og var hér eftir bankahrunið 2008. Það kemur ekki til greina að það verði liðkað fyrir því núna á þessum tíma. Þarna er ég að tala um 10. og 12. gr. frumvarpsins, ekki aðrar greinar. Ég gæti komið að 5. og 6. gr. á eftir sem eru allt annað mál. Það kemur ekki til greina (Forseti hringir.) að þetta verði gert. Ég sakaði hæstv. ráðherra ekki um að lauma þessu inn, ég notaði ekki það orðalag, og ég sakaði heldur ekki ríkisstjórnina um að lauma þessu inn. Ég spurði aðeins hvað byggi að baki framlagningu á 10. og 12. gr.