150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[16:34]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þar sem hv. þingmaður leggur það í vana sinn að útskýra hvað fer fram í hliðarsal þá er betra að maður komi hingað sjálfur og segi það. Það sem ég sagði er að bankarnir eru að frysta lán hjá fólki sem er í greiðsluerfiðleikum. Við sjáum það bara á tölunum, á þeim fjölda sem er að nýta sér það úrræði. Þeir sem eru komnir á m.a. atvinnuleysisbætur og sjá fram á erfiðleika nýta sér það úrræði. Við sjáum það líka í þinglýsingum og skilmálabreytingum hjá sýslumanni, þar er miklu meira álag. Það er eitt af því sem er að koma inn núna, sem þarf að afgreiðast hratt og vel, og er ein meginástæðan fyrir mikilvægi þessa frumvarps, að liðka fyrir rafrænni stjórnsýslu til að minnka hlutfall þeirra sem mæta hjá sýslumönnum, reyna að minnka það álag. Það sem ég hef gert líka er að reyna að auka þjónustuna. Búið er að opna aftur í hádeginu, það er lengri símatími hjá fjölskyldusviði o.s.frv. Það er auðvitað margt sem er verið að bregðast við.

Það sem hv. þingmaður er kannski að gefa sér er að þær skuldir sem nú er verið að fullnusta eigi rætur sínar í Covid. Það er engan veginn þannig. Það er verið að tryggja ýmis úrræði, verið er að lengja fresti auðvitað og þetta er eitthvað sem nefndin mun skoða. En það er mjög mikilvægt að þetta ástand stoppi ekki þau réttindi sem fólk hefur, að ekkert komi upp á sem veldur því að stjórnsýslan, sýslumenn eða dómstólar geti ekki gert eitthvað og það minnki réttindi fólks. Það má ekki verða þannig. Það er líka verið að mæta því í frumvarpinu með lengingu fresta, með nýjum tímatakmörkunum og öðru og auðvitað rafrænni þjónustu sem mér finnst áhugavert að sumir þingmenn, ekki hv. þingmaður sem hér hélt ræðu, virðast ekki vera fylgjandi.