150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[16:58]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið heldur fara aðeins yfir þær athugasemdir sem ég hef og vangaveltur í þeirri von að nefndin hafi um þær vitneskju og þá sé hugsanlega hægt að fjalla um þær og gera lagfæringar ef svo ber undir.

Ég geri mér grein fyrir að þær greinar sem ég hef skoðað á þessum stutta tíma eru í fyrsta lagi til bráðabirgða, tímabundið. Ég geri mér grein fyrir því. Þær gilda flestar ekki nema eitthvað fram á haustið. Ég átta mig einnig á því, herra forseti, að þetta eru heimildarákvæði, þarna er sýslumönnum, lögreglu og dómurum veitt heimild til að fara ákveðna leið, stytta sér leið, gera hlutina með öðrum og einfaldari hætti, eins og hæstv. ráðherra kom að áðan. Þetta er innleiðing á rafrænni stjórnsýslu til einföldunar og til að gera hlutina meðfærilegri og ekki of þunga í vöfum. Ég geri engar athugasemdir við það í sjálfu sér að hlutirnir séu gerðir einfaldir og skilvirkir en ég geri athugasemdir við það ef í frumvarpinu eru ákvæði sem einfalda hlutina fyrir lánastofnanir á kostnað heimila. Það er það sem ég geri alvarlegar athugasemdir við ef það er að finna í þessum greinum, eins og ég spurði um áðan varðandi 10. og 12. gr.

Mergur málsins er kannski þessi: Ég vann við þessi mál í áratugi og ég varð mjög sjaldan var við að það væri einhver örtröð á skrifstofum sýslumanna við framkvæmd þessara athafna, þ.e. aðfarargerðir og nauðungarsölur, með einhverjum undantekningum, en það var yfirleitt ekki örtröð. Ég spurði þess vegna hæstv. ráðherra: Hvað er það sem knýr á um það, núna í miðjum veirufaraldri, að breyta þessum lögum eða koma með bráðabirgðaákvæði eins og 10. og 12. gr.? Það var einfaldlega mín spurning. Hvað knýr á um það? Ég les það líka í greinargerðinni að þetta virðist hafa verið unnið í miklum flýti. Hæstv. ráðherra sagði það sjálf í ræðustól að þetta hefði borið brátt að verið og unnið í miklum flýti. Við skulum þá vona, og ég tek undir með ráðherra, að ef einhverja agnúa er að finna í frumvarpinu verði þeir lagfærðir í meðförum nefndarinnar. Ég geld auðvitað varhuga við mál sem eru gerð í miklum flýti og spyr þess vegna: Hvað er það sem knýr á um það hjá stjórnvöldum, að einfalda svona ferli mála, eins og í 10. og 12. gr., sem liðkar fyrir og auðveldar lánastofnunum að sækja á heimili landsmanna? Það var einfaldlega spurning mín. Hvað knýr á um það?

Það er alla jafna ekki örtröð á skrifstofum sýslumanna þegar þeir taka fyrir aðfarargerðir eða nauðungarsölur. Stundum eru þar einungis tveir mættir, sýslumaður eða fulltrúi sýslumanns og fulltrúi gerðarbeiðanda, það er algengast. Svo mætir einn og einn. Ég spyr því einfaldlega: Hvað er það sem knýr á um þessa breytingu? Ég er ekki að tala um breytingar í öðrum greinum þessa frumvarps heldur einungis vegna aðfarargerða og nauðungarsala.

Ég skil það vel að rafræn stjórnsýsla er eitthvað sem við eigum eftir að sjá í framtíðinni og það má kannski íhuga og móta svona frumvarp, en hvers vegna akkúrat núna? Það er mín spurning, hvers vegna?

Svo er óskýrleiki í 10. og 12. gr., hvort það var í báðum greinum eða annarri, en þar er talað um fyrirtöku. Í núgildandi lögum um nauðungarsölu eru t.d. ýmiss konar fyrirtökur aðrar en bara fyrsta fyrirtakan, það eru alls kyns aðrar fyrirtökur. Maður þarf bara að fletta upp í lagasafninu til að sjá það. Ég tel að nefndin þurfi að huga að því hvort þrengja þurfi orðalagið í greininni þannig að það sé alveg skýrt við hvað er átt, hvort einungis sé átt við þingfestingu málsins, þ.e. allra fyrstu fyrirtöku þegar málið er lagt fram, og þetta eigi ekki að gilda um fleiri fyrirtökur eða aðrar aðgerðir sýslumanna í viðkomandi máli.

Ég ætlaði líka að tala um 5. og 6. gr. og hefði viljað eiga orðastað við ráðherra um þær greinar. Ég hef áhyggjur af því að setja það í hendur dómara og lögreglu að taka ákvörðun um það hvenær verði notast við skýrslugjöf með fjarfundabúnaði. Það má vera að það sé í góðu lagi í einhverjum tilvikum, en ég geri athugasemd við að fram fari skýrslutaka með fjarfundabúnaði þegar um er að ræða sakborning, þann ákærða í dómsmáli. Ég verð að gera það. Það er alger undantekning, herra forseti, ef það væri leyfilegt. Hér er undantekningin fyrir framan okkur í frumvarpi og hefur auðvitað vægi ef það verður að lögum. Ég velti fyrir mér hlutum eins og réttlátri málsmeðferð og milliliðalausri sönnunarfærslu sem æðri dómstólar hafa verið að fetta fingur út í þegar héraðsdómstólar hafa tekið hliðarspor í þeim efnum. Ég velti fyrir mér, ef dómari ákveður að taka þessi lög og hafa þetta allt saman í fjarfundi og í alvarlegum málum t.d., hvort dómur í slíku máli gæti verið gerður afturreka fyrir æðri dómstólum, ég sé það fyrir mér, ef æðri dómstóll telur að ekki hafi verið fylgt 70. gr. stjórnarskrárinnar, um réttláta málsmeðferð, út í ystu æsar. Það er einungis þetta sem ég hef við ákvæðið að athuga, að það sé lagt í hendur dómara og lagt í hendur lögreglu á rannsóknarstigi.

Ég velti einnig fyrir mér varðandi þessar tvær greinar: Hver er þörfin? Hafa dómstólar eða lögreglan, sem ráðuneytið talaði ekkert við þegar frumvarpið var samið vegna þess að í upptalningu á samstarfsaðilum er ekki lögregla og ríkissaksóknari, beðið um þetta? Bað lögreglan um þetta? Er þetta til vandræða hjá lögreglu? Hvert verður gildi slíkra upptaka fyrir dómi? Sakborningur er staddur heima hjá sér, ákærði staddur á skrifstofu verjanda eða einhvers staðar annars staðar? Er þetta raunhæft? Hver kallar eftir þessu? Það er heldur ekki örtröð á skrifstofum rannsóknarlögreglunnar, það er yfirleitt rannsóknarlögreglumaður, vitni eða sakborningur með honum og þar er hægt að halda 2 metra reglunni með því að færa stólana í þá fjarlægð.

Herra forseti. Ég sé ekki alveg þörfina á sumum af þessum ákvæðum. Ég ætla ekki að meta hin ákvæðin, 1.–4. gr. og 7.–9. gr., ég hef ekki kynnt mér þau nægilega. Ég spyr bara: Hver er þessi knýjandi þörf á frumvarpinu, þeim greinum sem ég hef nefnt í ræðu minni? Mér finnst það algerlega ótækt ef þörfin er sú að þarna sé verið að liðka fyrir eða auðvelda lánastofnunum við meðferð aðfararbeiðna og nauðungarsölubeiðna. Ég vil ekki vera þátttakandi í slíkum leik, að liðka fyrir lánastofnunum í því ástandi sem nú er þar sem 10–15% og jafnvel stærri hluti þjóðarinnar horfir fram á atvinnuleysi. Ég vil ekki vera þátttakandi í því. Ég myndi frekar vilja vera þátttakandi í frumvarpi þar sem ákveðið væri að fresta þessum aðgerðum, fresta nauðungarsölum, frysta nauðungarsölur og aðfarargerðir í nokkra mánuði. Ég myndi frekar vilja vera þátttakandi í slíkum aðgerðum en að hella olíu á eld sem kveiktur er af lánastofnunum.