150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[17:09]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil skýra enn á ný sum atriði sem þarf greinilega að skýra í þriðja sinn fyrir einhverjum þingmönnum varðandi þetta mál. Það er auðvitað svo að þetta eru ekki viðbrögð við efnahagsafleiðingum Covid. Þetta eru viðbrögð við samkomubanni og fjarlægðartakmörkunum. Ef menn væru búnir að kynna sér tilmæli sóttvarnalæknis og ríkislögreglustjóra væri ljóst að þær reglur eru ekki bara um þá sem eru í sama herbergi heldur alla sem eru á sama stað. Þar telja líka starfsmenn. Við sjáum þær áskoranir sem sýslumenn mæta, það geta einungis tíu mætt inn í hvert sinn til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu af því að þar eru fyrir starfsmenn í sama rými. Við því þarf að bregðast og eftir því hafa sýslumenn óskað sérstaklega svo að þeir geti sinnt verkefnum sínum sem skyldi. Aðrar ákvarðanir um vernd fólks, vernd heimila, um viðspyrnu í efnahagslífinu koma fram í efnahagsaðgerðum stjórnvalda, en það er önnur umræða. Hér er verið að gæta að því að aðilar geti sinnt verkefnum sínum og það er auðvitað með ýmsum hætti, enda eru þetta breytingar á fjölmörgum lögum.

Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson taldi að sumar aðgerðirnar sem eru varanlegar ættu ekki að vera það. Þá langar mig sérstaklega að taka fram að það eru aðgerðir sem lengi hafa verið í skoðun hjá dómsmálaráðuneytinu og undirstofnunum og hafa verið á lista yfir þær breytingar sem þarf að gera til að liðka fyrir rafrænni málsmeðferð. Það eru breytingar sem sjálfsagt er að ráðast í nú að verði varanlegar. Þetta eru breytingar eins og að geta sent dánarvottorð rafrænt milli aðila, að bréfleg faðernisviðurkenning geti farið fram rafrænt, þar er allt rafrænt nema eina afhendingin sem þarf að gera. Þetta er breyting á ættleiðingarlögum um að í undantekningartilfellum megi fá samþykki rafrænt og breyting á útlendingalögum um að sá sem sækir um dvalarleyfi geti undirritað rafrænt. Þetta er allt til þess að auðvelda fólki og aðstoða það, að bæta þjónustu við fólk. Það er það sem stjórnsýslan á alltaf að gera, að reyna að bæta þjónustu, einfalda og flýta og kerfið sé ekki fyrir. Ég hefði ætlað að Miðflokkurinn myndi styðja slíkar tillögur en svo er greinilega ekki og mikil tregða við jákvæðar rafrænar breytingar. Ég myndi leggjast gegn tillögum um að hafa þessi ákvæði til bráðabirgða. Ef það verður niðurstaðan núna mun ég koma með nákvæmlega sömu breytingar aftur, fyrstu fjórar greinar frumvarpsins, enda hefur verið legið yfir þeim í lengri tíma. Það er þörf á að breyta miklu fleiri lögum til þess að rafræn eyðublöð séu jafngild hinum og við færum okkur meira yfir í rafræna stjórnsýslu hvert sem litið er.

Hinar breytingarnar eru á réttarsviðum sem eru undanskilin gildissviði stjórnsýslulaga samkvæmt IX. kafla þeirra laga og það eru sérstakar málsmeðferðarreglur. Því eru þær settar fram í bráðabirgðaákvæði enda þyrfti að liggja betur yfir slíkum breytingum. Það verður áhugavert að sjá hvernig þær munu reynast, taki þetta frumvarp gildi. Það eru sérstakar reglur. En það var haft samráð við lögregluna þó að láðst hafi að taka það fram í samráðskaflanum, sé ég. Það var samráð við fjármálaráðuneytið, forsætisráðuneytið, dómstólasýsluna, sýslumenn, Útlendingastofnun og svo mætti lengi telja. Þetta frumvarp var unnið afar vel þó að það hafi auðvitað ekki tekið jafn langan tíma og mörg önnur frumvörp og ekki farið í samráðsgátt stjórnvalda. Það var lögð öll áhersla á að klára frumvarpið en gera það vel og vanda til verka og haft samráð við alla þá aðila sem talið var þurfa, enda snúa breytingarnar að fjölmörgum aðilum.

Síðan er það sem ég þarf að leiðrétta hér í þriðja sinn, þ.e. hvað verður rafrænt. Hv. þm. Karl Gauti Hjaltason virðist ekki skilja hvernig fyrirtökur fara fram og hverjar eru á skrifstofu sýslumanna og hverjir ekki. Fyrirtakan, byrjunin, byrjun uppboðs, fer fram á skrifstofu sýslumanna sem er verið að bjóða upp á að gera með rafrænum hætti eða í fjarfundabúnaði. Það sem fer síðan fram á eigninni sjálfri verður ekki rafrænt, enda mun flóknara að reyna að gera slíkt rafrænt. Það mun auðvitað fara fram með eðlilegum hætti þannig að ég held að hv. þingmaður ætti að skilja þetta nú.

Svo vil ég ítreka það að tilgangur frumvarpsins er aðeins sá að geta aðhafst með venjulegum hætti í venjulegum málum en með rafrænum búnaði og brúa bilið vegna þeirra takmarkana sem eru í gildi en taka líka varanlegar og mikilvægar ákvarðanir sem þarf til að ryðja úr vegi takmörkunum í lögum um undirritun með eigin hendi eða um skrifleg eyðublöð. Það eru líka mikilvægar breytingar til framtíðar og í takt við allar þær ýmsu breytingar sem við erum að gera í verkefninu um stafrænt Ísland og fjárfesta meira í rafrænni þjónustu sem mun spara ríkinu marga milljarða.

Ég vona að frumvarpið fái góða meðferð hjá allsherjar- og menntamálanefnd, enda um afar jákvæðar og nauðsynlegar breytingar að ræða vegna þess ástands sem uppi er en líka út af aukinni áherslu á mikilvægi rafrænnar stjórnsýslu sem bætir þjónustu við fólk og léttir á sýslumannsembættunum og gefur kannski færi á að sinna betur þeim biðlistum sem þar eru.