150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[17:18]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er áhugavert að bæði sé sagt að málið hafi ekki komið nógu fljótt inn og líka að það hafi komið allt of fljótt og verið unnið í allt of miklum flýti. Það er auðvitað ekki svo. Vandað var til verka þegar málið var unnið og öllum þeim atriðum velt upp sem geta komið upp. Það verða áfram tilmæli um tveggja metra fjarlægð. Það verða enn þá einhverjar takmarkanir til lengri tíma, eins og sóttvarnayfirvöld hafa lagt til, og þess vegna er þetta mikilvægt. Það er algerlega sjálfsagt ef þingið ákveður að gera þessar minni háttar rafrænu breytingar tímabundnar, þær skipta máli í því að létta á sýslumönnum út af þeim fjölda sem mætir þangað daglega. Þær breytingar skipta líka máli og ef þær verða til bráðabirgða núna koma þær bara með öðrum breytingum og það felst engin hótun í því. Það er bara staðreynd og svar við spurningu hv. þingmanns um það hvort þetta mætti ekki allt vera til bráðabirgða. Þetta var svarið mitt. Ég sagði: Þær hafa verið unnar lengur. Lagst hefur verið yfir þessar breytingar sem og fleiri breytingar um rafræna þjónustu sem lögð er mikil áhersla á í öllum ráðuneytum. Ég var aðeins að upplýsa þingmanninn um það og óþarfi að kalla það hótun þegar ég kem með staðreyndir um þær breytingar sem ég er að koma með til langframa. Ef þær þurfa meiri yfirlegu, gott og vel, það að breyta úr pappír í rafrænt form fyrir fólk. Ég tel að breytingarnar séu mjög vel ígrundaðar og þurfi ekki frekari yfirlegu en ef þingmenn telja svo vera munu þeir hafa þær til bráðabirgða og ekki til langframa. Það er algjörlega undir þinginu komið, enda er frumvarpið komið til þinglegrar meðferðar.

Ég býst við að nefndin muni taka málið á dagskrá og nýta tíma sinn núna í það að fjalla um það og hvaða breytingar sé hægt að gera á því, ef einhverjar eru og ef nefndin telur þörf á því. En ég tel málið þannig unnið að búið sé að skoða vandlega þær breytingar sem lagt er til að verði varanlegar. Og það var það sem ég var að segja hv. þingmanni. Hann lagði mér þau orð í munn að málið allt hefði verið unnið í miklum flýti en kvartaði svo líka yfir að það hefði ekki komið hingað inn fyrr. (Forseti hringir.) Frumvarpið var ekki lagt fram fyrr af því að vandað var til verka við þær breytingar sem þó eru gerðar og það að beiðni sýslumanna í landinu þar sem mikill fjöldi fólks leggur leið sína til þeirra daglega.