150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[17:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það getur vel verið að ég sé farinn að kalka og eflaust er töluverð hætta á því að ég sé farinn að kalka, enda miklu eldri en hæstv. ráðherra og hef kannski ekki heldur fylgst nógu vel með. En ég man ekki eftir að hafa sagt að þetta mál hafi verið unnið í miklum flýti. Það getur vel verið að ég hafi sagt það. Aðrir hafa a.m.k. sagt það, hæstv. ráðherra. Ég held því hins vegar fram alveg fullum fetum og stend við það, virðulegur forseti, að það að koma inn með þetta mál á einhverjum spretti þegar á að fara að létta á fjöldatakmörkunum finnst mér svolítið kostulegt. Þetta mál hefði átt að vera komið inn í þingið fyrir löngu ef það skiptir svona miklu máli. En það er ágætt að heyra ráðherra segja það núna að þingið geti sett tímatakmarkanir á allar greinarnar og að ráðherra muni ekkert fyrtast við, enda er það þingið sjálft sem ræður því en ekki ráðherrann. (Dómsmrh: Já, það …) Að sjálfsögðu er það þannig.

Ég ætla að hvetja ráðherra til að hlusta á seinni ræðu sína áðan. Ég verð að biðja forseta afsökunar ef mér hefur misheyrst en ég heyrði ekki betur en að ráðherrann væri beinlínis að segja að ef þingið ætlaði eitthvað að fara að fikta í þessu máli kæmi hún bara með það aftur seinna — og að sjálfsögðu, ráðherrar gera það. En það er óþarfi að vera með einhvern hótunartón við þingið, eins og ráðherra var með í ræðu sinni. Svo vona ég bara að ráðherra gangi vel í störfum sínum.