150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

staða sveitarfélaga.

[10:41]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég held að það sé áríðandi að ræða við hæstv. ráðherra um rekstur sveitarfélaga. Sveitarstjórnirnar sjá um mikið af okkar dýrmætasta rekstri og nærþjónustu, leikskóla, grunnskóla, öldrunarþjónustu, málefni fatlaðra og annarra viðkvæmra hópa. Sveitarfélögin og starfsmenn þeirra hafa sýnt aðdáunarverða aðlögunarhæfni til að bregðast við erfiðum veirufaraldri en að sama skapi hefur þetta kostað sveitarfélögin mjög mikið. Jafnframt er uppi sú krafa að þau gefi eftir takmarkaða tekjustofna og ráðist í stórauknar framkvæmdir. Sveitarfélög geta hins vegar ekki aflað sjálfstæðra tekna með sköttum. Þau hafa minni möguleika til skuldsetningar en ríkið og þau geta ekki prentað peninga eins og ríkissjóður getur og er að gera nú.

Ég fagna auðvitað jákvæðum aðgerðum sem ríkisstjórnin hyggst ráðast í en það er alveg ljóst að ríkisstjórnin verður að stíga miklu fastar til jarðar til stuðnings sveitarfélögunum. Það væri auðvitað vel af sér vikið ef við hæstv. ráðherra gætum staðið hér eftir eitt ár og rætt hversu vel hafi tekist að bjarga fyrirtækjum landsins. Við skulum endilega stefna að því saman. Það væri á hinn bóginn ömurlegt ef okkur hefði ekki tekist að verja okkar dýrmætustu nærþjónustu, leikskóla, grunnskóla, öldrunarþjónustu, málefni fatlaðra og annarra, svipta fjölda manns dýrmætum lífsgæðum og skerða framtíð barna. Ég veit að ráðherra er mér sammála. Ég ítreka að ég er ekki að gera lítið úr þeim aðgerðum sem þegar hafa verið birtar, en ég vil fá að vita til hvaða frekari aðgerðir ríkisstjórnin hyggist grípa í þágu sveitarfélaga. Hefur verið kortlagt hvernig beinn stuðningur er á hinum Norðurlöndunum?