150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

staða sveitarfélaga.

[10:43]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta málefni upp sem ég held að sé mjög áhugavert að ræða hér í þingsal. Við erum sammála, eins og hv. þingmaður nefndi, um mikilvægi sveitarstjórnarstigsins í nærþjónustunni og ég tek undir með hv. þingmanni að sveitarfélögin og starfsmenn þeirra hafa verið útsjónarsöm að aðlaga sig að breyttum aðstæðum og allir eru að kortleggja stöðuna. Hún er mismunandi. Við höfum verið með sérstakt verkefni er varðar Suðurnesin í gangi. Það var reyndar sprottið upp úr allt öðrum aðstæðum, það var vegna vaxtarverkja, fjölgunar og uppbyggingar á þeim tíma. Við höfum séð önnur svæði á landinu vegna ferðaþjónustunnar vaxa kannski jafn hratt en ekki með eins miklum mannafla sums staðar á Mið-Suðurlandi og fyrir norðan. Núna er staðan bara allt önnur. Við vorum ágætlega stödd í þessum verkefnum með Suðurnesin og getum þess vegna einmitt beint ákveðnum aðgerðum til þeirra.

Það er búið að fela Byggðastofnun að greina stöðu annarra sveitarfélaga og við munum setja á laggirnar hóp til að taka stöðuna á ólíkri stöðu sveitarfélaga. Það er ekki þannig að menn geti sett einhverja eina tölu og dreift því á öll sveitarfélögin. Sum sveitarfélög í landinu hafa til að mynda verið að skila umtalsverðum hagnaði á hverju einasta ári, afgangi, og hafa kannski ágæta burði til að takast á við þetta. Sveitarstjórnarstigið er jú með 30% af umsýslunni. Það er rétt hjá hv. þingmanni að sveitarfélögin hafa ekki sömu möguleika og ríkið að setja á nýja skatta en með sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna hafa þau hins vegar umtalsvert svigrúm. Við erum búin að rýmka fjármálareglurnar í aðgerðapakka nr. 1. Í aðgerðunum sem við kynntum í gær voru fjölmargar til þess að styðja það einmitt að taka þungann af sveitarfélögunum varðandi viðkvæma hópa. Ætli það séu ekki 1,5 milljarðar sem við erum að fara með þar inn akkúrat núna, ég held að það sé rétt mat. En við munum þurfa að greina þetta betur og við erum að setja slíka vinnu í gang (Forseti hringir.) og bara síðast núna í morgun átti ég ágætt samtal við formann og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga um þau mál.