150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[18:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var að velta fyrir mér og spurði reyndar um það líka, og eðlilega er tíminn skammur hér hjá okkur, hvað gerðist eftir 3. maí. Ef ég skil þetta mál rétt gildir þessi aðgerð til 3. maí varðandi þær 2,4 milljónir eða þrisvar sinnum 800.000 kr. sem á að veita. Eftir 3. maí þarf þá eitthvað að gerast, annaðhvort að fyrirtækin séu komin á fullan snúning eða þá einhverjar aðrar aðgerðir, nema ég sé að misskilja þetta. Þess vegna spyr ég um það. Athygli okkar hefur líka verið vakin á því að það er ekki nóg að fá einhvern stuðning ef fyrirtækin geta ekki opnað, eins og rakarar eða nuddarar og eitthvað slíkt, út af fjarlægðartakmörkunum sem eru í gangi og þess háttar. En ég er ekki að gera lítið úr því, það er mikilvægt að koma til móts við einkageirann og ég fagna því sérstaklega.

Hæstv. ráðherra tók sérstaklega fram, og það kemur vitanlega fram í frumvarpinu, að það eigi að draga þennan lokunarstyrk frá lánunum, ef ég skil það rétt. Er einhver sérstök ástæða fyrir því?