150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[18:18]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Í mínum huga þarf að fylgjast vel með því að bankarnir séu ekki að fá aukinn ábata á kostnað skattgreiðenda í þessu. Auðvitað fylgir einhver kostnaður þessu, það þarf bara að vera sanngjarnt. En upphæðirnar eru háar þannig að það er verulega mikið í húfi. Ég nefni samsvörun við viðbótarlánin, brúarlánin, en Ríkisendurskoðun nefndi í umsögn sinni um brúarlánin að það væri augljós hætta hvað varðaði veðtryggingar. Þá spyr maður hvort það sama sé uppi á teningnum varðandi stuðningslánin. Er það tryggt að bankarnir hafi ekki verið að krefjast aukinna trygginga, þ.e. bæta sín lán og lána svo viðbótarlán með áhættu ríkisins? Þetta er einn af þeim eftirlitsþáttum sem þarf að huga að og eftirlitið getur verið mjög flókið með þessari lánafyrirgreiðslu. (Forseti hringir.) Ef hæstv. ráðherra gæti aðeins komið inn á hvernig hann sér (Forseti hringir.) fyrir sér að því verði háttað en líka, (Forseti hringir.) eins og ég nefndi, að bankarnir séu ekki að bæta lán sín á kostnað ríkisins.