150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

aðgerðir í þágu atvinnulausra vegna COVID-19 heimsfaraldursins.

723. mál
[21:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Þessi tillaga passar ágætlega inn í áherslur sem Píratar hafa vakið athygli á og eru hluti af því sem ættu að vera fyrstu skrefin í svona ástandi, þ.e. að skilgreina og tryggja grunninn, lágmarksframfærsluna. Það er mjög undarlegt að við séum með framfærsluviðmið á mjög mörgum stöðum og ekki skilgreint neitt lágmarksgólf þannig að fólk dettur niður í gegnum allar aðrar glufur í þessu mjög svo flókna kerfi sem við erum með. Fólk þyrfti þá a.m.k. að lenda niðri á atvinnuleysisbótum. Þetta frumvarp hjálpar mjög í áttina að því.

Annað sem stjórnvöld ættu að taka strax tillit til og minni hlutinn hefur kallað eftir er varnir fyrir heimilin, t.d. að stoppa nauðungarsölur í einhvern ákveðinn tíma þannig að fólk hafi þak yfir höfuðið og hafi framfærslu til að hafa ofan í sig og á. Þetta eru tvö grunnskilyrði sem við þurfum að huga að í svona aðstæðum. Þessi þingsályktunartillaga er tvímælalaust skref í rétta átt þar og ég tek heils hugar undir hana.