150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

aðgerðir í þágu atvinnulausra vegna COVID-19 heimsfaraldursins.

723. mál
[21:57]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða hérna þingsályktunartillögu um aðgerðir í þágu atvinnulausra. Ég tek heils hugar undir hana, hún er algjörlega í anda okkar í Flokki fólksins. Ef ég vildi einhverju breyta myndi ég vilja hafa upphæðina hærri, ekki 314.720. Ég myndi vilja fara strax í þá upphæð sem ég ræddi hér fyrr í dag, 407.000 kr., sem ég held að sé uppreiknuð nálægt því að vera rétt framfærsla. Þannig er hægt að hafa listamannalaunin og það sem er eiginlega betra við það er að þau eru skerðingarlaus, engar keðjuverkandi skerðingar á þeim og fólk má vinna og bjarga sér. Svoleiðis vil ég hafa atvinnuleysisbæturnar. Ef við berum saman við atvinnuleysisbótaupphæðina eru öryrkjar á 255.000 kr. og keðjuverkandi skertir og síðan koma margir eldri borgarar líka með 257.000 kr. sem er það ömurlegasta af öllu. Við þurfum að flýta breytingu í gegn og sem betur fer er að störfum nefnd í sambandi við búsetuskerðingar eldri borgara og öryrkja. Því miður er núna fyrst verið að taka á eldri borgurum en í því sambandi verður líka að taka á gagnvart öryrkjum vegna þess að ekki er til neitt ömurlegra en kjör þeirra. Þetta er ekki stór hópur og það er okkur til háborinnar skammar og ömurlegt til þess að vita að við látum fólk reyna að lifa á einhverju sem við vitum að er gjörsamlega vonlaust, upphæð sem er svo lág að það er eiginlega til skammar að nefna hana.

Þó að ég taki listamannalaun sem dæmi er ég ekki að gagnrýna þau, listamönnum veitir ekkert af og ég styð laun þeirra heils hugar. Við höfum séð núna helgi eftir helgi hjá honum Helga uppi í Kjós hversu magnaðir listamenn eru. Án þeirra væri lífið grámyglulegt og ekki eins yndislegt. Ég hlakka til á hverju einasta laugardagskvöldi að hlusta á listamennina Helga og þá sem koma fram með honum. Ég er feginn að það sé búið að finna ákveðinn grundvöll. Við höfum gert kröfu um og beðið um að fá rétta framfærslu. Hún þarf að vera rétt og við vitum að þetta sem við erum með í gangi með fimm, sex mismunandi framfærsluleiðum gengur ekki upp. Við þekkjum svörin, í góðærinu er ekkert gert og á hverjum bitnar það síðan þegar góðærið fer? Hverjir fá þá síst? Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina og sést í þeirri umfjöllun sem ég sýndi í dag að skerðingar hafa aukist gígantískt hjá eldri borgurum og öryrkjum. Enginn er sæll af því að þurfa að lifa af þessu og þess vegna styð ég heils hugar allt sem miðar að því að enginn þurfi að lifa í fátækt, hvað þá sárafátækt. (Forseti hringir.) Eins og staðan er í dag lifir þetta fólk í fátækt.