150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

opinber stuðningur til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

711. mál
[12:07]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega erfitt að segja til um hversu mikið mun reyna á Kríu, vonandi sem mest. Vonandi munu þessir fjármunir fara út vegna þess að það þýðir að mikil hreyfing er í þessu umhverfi og á þessum mörkuðum. Við erum auðvitað í dag með fleiri tæki eins og til að mynda Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins sem fjárfestir vissulega, eins og staðan er í dag, beint í fyrirtækjum og þeir fjármunir eru í rauninni eign ríkisins. En þessi sjóður er ekki hugsaður til að velja sigurvegarana heldur til þess að tryggja að umhverfið verði samkeppnishæfara, sterkara og þroskaðra og auka þannig líkur á því að góðar hugmyndir verði að veruleika. Við eltum í rauninni bara markaðinn að uppfylltum þessum skilyrðum, tökum ekki afstöðu til þess hvers konar fyrirtæki er um að ræða. Ef það verður hins vegar mat fjárveitingavaldsins og/eða stjórnvalda að meiri fjármuni þurfi í sjóðinn er það eitthvað sem við munum þá hafa tíma til að takast á við. Fyrst um sinn er mikilvægast að málið fái þinglega meðferð, hægt sé að skipa stjórn og koma reglugerðinni í samráð, smíða hana og við fáum skýrari ramma utan um sjóðinn og að hann komist síðan af stað til þess að verkefnin fái framgang.