150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

opinber stuðningur til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

711. mál
[12:13]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við í þessu verkefni munum að sjálfsögðu nýta stofnanaumhverfið sem er til staðar og það verður aðeins að fá að sýna sig hvernig verkefnin hjá Kríusjóðnum þróast. En það skiptir máli að passa mjög upp á það að Kría sé algerlega sjálfstæð eining með sjálfstæða stjórn og með sín markmið.

Hér er spurt af hverju við fórum ekki í það, ef ég skildi rétt, að koma á laggirnar þróunarbanka. Svarið við því er að við höfum unnið samkvæmt þessu í töluvert langan tíma, að koma á fót svona sjóði, allt frá því að forveri minn, Ragnheiður Elín Árnadóttir, og fleiri fóru í samstarfsverkefni við MIT. Niðurstaðan úr því var að þetta væri sá hlekkur sem helst vantaði í keðjuna. Við höfum síðan unnið að því. Það er sömuleiðis það sem kemur út úr nýsköpunarstefnu fyrir Ísland, að þetta sé það verkefni sem helst þurfi að ráðast í af hinu opinbera til að þroska og þróa þetta umhverfi.