150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

opinber stuðningur til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

711. mál
[12:16]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi hugmyndina um Stuðnings-Kríu get ég tekið undir með hv. þingmanni, ég hugsaði alveg hvort við værum einhvern veginn að flækja Kríuhugmyndina með því að tala um Stuðnings-Kríu. Vinnutalið mitt var alltaf að tala um kríuunga, af því að þetta er eitthvað sem hleypur aðeins af stað til að bjarga því sem bjargað verður vegna Covid-ástands. Það er í rauninni bara takmarkað og tímabundið átak til að geta komið til móts við það, í einhverjum tilfellum, sem getur gerst í þessu ástandi. Á sama hátt og við erum með önnur úrræði sem eru síðan falin bankakerfinu að finna út úr, þá reynir á annars konar aðgerðir í þessu umhverfi en í hinu hefðbundna fjármálaumhverfi.

Hugmyndin er að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins taki að sér umsýsluna um þessa Covid-björgunaraðgerð sem Stuðnings-Krían er hugsuð til að fylgja eftir. Við erum að vinna að þessu mati, hvernig fjárhæðinni verði skipt, og það er eitthvað sem ég þarf líka einfaldlega að ræða við efnahags- og viðskiptanefnd, hvort það er nefndin sem þarf að skipta því eða hvort heimilt sé að fela okkur það þegar þar að kemur. Við þurfum aðeins að sjá hvernig þetta fer, á morgun er kominn maí og þetta mál er komið fyrir þingið. Hvenær verður það afgreitt? Hvað er hægt að ætla langan tíma í að skipa stjórn og koma reglunum út? Í rauninni er Kría forgangsatriði en það er bara spurning hvað er raunhæft að koma út miklum fjármunum af þessari heildartölu í Kríuverkefnið og sömuleiðis þarf að þreifa aðeins fyrir sér með það hver þörfin er fyrir hitt úrræðið. Þetta mat er í gangi.