150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

opinber stuðningur til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

711. mál
[12:19]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst út af spurningu í fyrra andsvari varðandi Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins: Ég er ekki með nákvæma tölu á fjárhagsstöðunni en það hefur a.m.k. ekki verið flaggað við mig neinum sérstökum vandræðum þar. Mér skilst að ársfundurinn, ef ég man rétt, sé í næstu viku. Það hefur gengið ágætlega á þeim vettvangi.

Varðandi spurningar hv. þingmanns erum við í dag með nokkra sjóði sem ekki eru allir búnir að fjármagna upp í topp. Sumir eru þá væntanlega farnir að huga að stofnun næsta sjóðs, til að mynda hefur Crowberry Capital gengið ágætlega í sínum verkefnum. Við höfum líka fundið fyrir áhuga erlendis frá og þessir sjóðir segja okkur líka frá því að þegar þeir fara til útlanda er áhugi á Íslandi sem fjárfestingarkosti. Ég held að það geti verið mjög spennandi verkefni, þegar þessir sjóðir fá svolítið skýrari ramma og reglur um það hvað Kría nákvæmlega er, það geti líka hjálpað okkur að vera sendiherrar á öðrum vettvangi fyrir því að þetta sé kostur hér. Vonandi kemur líka fjármagn erlendis frá, sem er þá ekki bara til að auka fjármagn í umferð heldur ekki síður til að kenna okkur, til að fá reynsluna og þekkinguna að utan.