150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

opinber stuðningur til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

711. mál
[12:36]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég held og veit að þetta mál er í grunninn mjög gott mál. Þetta er mikilvægt mál. Það bætir mjög umgjörð svokallaðra vísifjárfestinga, þ.e. fjárfestinga í fyrirtækjum sem eru komin vel á legg og geta átt framtíðina fyrir sér. Þarna er verið að leiða saman aðstoð frá ríkinu og fjármagn frá einkafjárfestum, jafnvel frá lífeyrissjóðum eftir atvikum, þannig að ég held að þetta sé mjög mikilvægt. Þessir sjóðir hafa þau einkenni að þeim stýrir fólk, þ.e. vísisjóðunum, sem hefur mikla reynslu og þekkingu í fjárfestingum á nýsköpunarsviði og færir oft inn í fyrirtækin mjög mikilvæga þekkingu og reynslu og leiðbeiningar um vöxt og viðgang þessara mikilvægu fyrirtækja sem öll eru að keppast við að verða stór og skapa miklar tekjur og atvinnu eftir atvikum.

Mikilvægt er þegar við ræðum um nýsköpunarmál og fjármögnun í nýsköpun að gera mjög skýran greinarmun á því sem eru styrkir og aðstoð og stuðningskerfi, sem er vissulega mjög mikilvægt, og síðan því þegar tekið er til við að fjárfesta í félögum. Á því er reginmunur. Og svo má síðan bæta við þriðja flokknum, sem er lánsfé. Þetta er allt gjörólíkt. Þessir peningar eru af ólíkum toga og þjóna ólíkum tilgangi.

Ég held að verið sé að stíga mjög mikilvægt skref hér. Ég held að skynsamlegt væri fyrir þingið að hraða afgreiðslu málsins þannig að það gæti orðið að lögum í vor, ég held að það sé mjög mikilvægt því að þetta tengist mjög við aðrar áætlanir um eflingu nýsköpunar. Við þurfum sem aldrei fyrr á því að halda að horfa núna til langs tíma. Aðstæður eru vægast sagt óvenjulegar í samfélaginu, við vitum það öll. Við höfum oft sagt það við okkur og okkur hefur margoft verið sagt að við þurfum að hafa fjölbreyttara atvinnulíf á Íslandi. Þótt tilefnið sé kannski ekki það sem maður hefði óskað sér erum við í kjörstöðu núna til að gera samstillt átak í því að gera enn betur. Það mun kannski ekki skila árangri á morgun, ekki í næsta mánuði en þegar fram í sækir mun þetta skipta sköpum fyrir okkur. Við eigum því að hugsa stórt í þeim efnum og vera djörf þegar við tökum ákvarðanir um skipulag á því sviði og veitingu fjármagns. Ég vil nota tækifærið til að segja að samtímis og við erum að gera þetta þá eigum við að gera enn betur í því að styðja við og bæta fjármagni í sjóði eins og Tækniþróunarsjóð, Rannsóknasjóð og Innviðasjóð. Það eru sjóðir sem veita styrki. Þeir veita styrki vegna umsókna á grundvelli gæða verkefna og við vitum að úthlutunarhlutfall þar er mjög lágt. Það eru mjög mörg verkefni sem gætu vel farið af stað og eru efnileg en fá ekki brautargengi. Það er mjög slæmt.

Ég vildi bara segja þessi nokkur orð hér um þetta því að ég held að þetta sé gríðarlega mikilvægur þáttur í því að örva umhverfið, laða fleiri að með fjármagn. Þetta getur þess vegna opnað dyr til útlanda til að sækja fé. Það er nú einu sinni þannig að jafnvel þó að hér sé um að ræða vísifjárfestingar eða áhættufjárfestingar þá eru áhættufjárfestingar samt þess eðlis að menn vilja hafa þær eins öruggar og hægt er, þó að mótsögn sé í því í sjálfu sér. Þegar umgjörðin er skýr, fyrir liggur að stjórnvöld leggi málunum lið með öflugu styrkjakerfi og síðan með öflugri aðkomu að vísisjóðum sem óska eftir þátttöku ríkisins, þá skiptir þetta gríðarlega miklu máli í því þegar þeir sem eiga mesta fjármagnið og eru sérhæfðir í fjárfestingum í nýsköpun leita að fjárfestingartækifærum sínum. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli. Ég vil því hvetja þingheim og okkur öll til að hugsa stórt, bæði í þessu máli og ekki síður í öðrum nýsköpunarmálum sem þessu tengjast, á því veltur að okkur farnist vel í framtíðinni.