150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og skráning raunverulegra eigenda.

709. mál
[13:55]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru ýmsar hugleiðingar um það alþjóðasamstarf sem þarf að vera í þessum málaflokki. Það er auðvitað partur af því að við erum þátttakendur í FATF-samstarfinu sem hefur reynt á og við höfum reynt að standa verulega undir síðustu misseri. Þar er mjög virkt alþjóðasamstarf sterkur grunnur, að fá upplýsingar, að lönd séu saman í þessu verkefni og eigi greiðan aðgang að upplýsingum annarra landa, stöðu og öðru. Þetta er stór partur af þessu enda snýst þetta mjög oft um aðgerðir milli landa, þvert á landamæri. Það er auðvitað misjafnt hvort það séu lönd innan þess alþjóðasamstarfs eða ekki en þá reynir oft á gott samstarf við ríki sem hafa kannski enn frekari upplýsingar eða aðgengi að þeim löndum.