150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

barnalög.

707. mál
[14:08]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta og tek undir að hér eru ýmsar góðar breytingar. En auðvitað vakna ýmsar spurningar og það sem hv. þingmaður nefnir hér varðandi þá stöðu þegar ekki er skipt búseta, einungis sameiginleg forsjá, þá hefur lögheimilisforeldri meira ákvörðunarvald, eins og kemur skýrlega fram í töflu sem er aftast í frumvarpinu til að átta sig á mismunandi réttarstöðu. Ég er ekki að leggja til neinar breytingar á þeirri stöðu þegar foreldrar vilja ekki fara í skipta búsetu, eins og ég er að leggja til að verði hægt. Það er kannski önnur umræða sem þarf að fara í. En ég er samt að leggja til breytingar til að auka samningsfrelsi foreldra ef þeir vilja haga málum með öðrum hætti þó að þeir séu ekki með sameiginlega búsetu. Það sé mögulegt að þeir þurfi ekki að semja um meðlag ef vilji er ekki til þess og það sé bara sátt um að fjárhagsstaða annars sé betri og hins verri, það sé hægt að komast að niðurstöðu um slíkt. Ég vona auðvitað að þessi leið gagnist mörgum því að það er ljóst að þrátt fyrir að ágreiningur sé uppi hjá ýmsum foreldrum er fjöldi foreldra í fullri sátt og hafa þá betri rétt, þá hefur lögheimilisforeldrið ekki þennan ríkari rétt heldur er allur réttur sameiginlegur og samvinna algjört lykilatriði.