150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

barnalög.

707. mál
[14:18]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég held að við séum að taka stórt skref með þessu nýja ákvæði, sem er ekki í núgildandi lögum, um samtal að frumkvæði barns. Ég tek auðvitað undir að við eigum að taka þau skref sem við höfum skuldbundið okkur til að taka og ég tel að við séum að gera það að miklu leyti með þessu nýja ákvæði í lögunum sem og auknum réttindum til að koma sjónarmiðum sínum að víðar og þegar ágreinings gætir. Ég hlakka til að sjá hvernig þetta reynist og vona að það reynist vel. Ég er ekki ósammála þingmanninum varðandi það að setja ákvæði og kynna börnum svo hver réttindi þeirra eru. En það er mjög mikilvægt að við fylgjum þessu samt sem áður eftir og áttum okkur á því hvernig við komum skilaboðum nægilega vel á framfæri til barna þannig að þau þekki þann rétt sinn sem verður lögbundinn með þessum nýju ákvæðum.