150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

barnalög.

707. mál
[14:25]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að nefna hér stöðu foreldra sem eiga barn með fötlun af því að það er rétt að þar fellur til mikill kostnaður og þarf mikinn útbúnað sem aðeins annað foreldri fær miðað við núgildandi löggjöf. Þetta kemur auðvitað einkum upp þegar lögheimilisforeldri er í svona afgerandi betri stöðu þrátt fyrir annan vilja foreldranna. Þetta er einmitt ein af þeim breytingum sem félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið þurfa að koma með í kjölfarið og það er ástæða þess að frumvarpið tekur ekki gildi fyrr en um mitt næsta ár, eða 1. apríl 2021. Það er til að geta brugðist við svona aðstæðum. Það verður þá ekki tekið á því í þessum lögum heldur þarf að breyta lögum sem heyra undir aðra ráðherra og reglugerð svo réttaráhrif og vilji þessa frumvarps, sem stendur algerlega til þess, standist í svona aðstæðum. Ég bind miklar vonir við að réttur beggja foreldra fatlaðra barna verði þá jafn ríkur og jafn skiptur þegar kemur að stuðningi við kaup á tækjum og öðru af því að ég veit að þessi dæmi eru ljóslifandi og hef fengið nokkrar sögur af þeim.