150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

aðgerðir í þágu námsmanna vegna COVID-19.

733. mál
[16:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Þetta er fín þingsályktunartillaga, hún er meira að segja á þeim nótum að þegar var verið að fjalla um fjáraukann í 1. umr. ruglaði ég þessari aðgerð við atvinnuleysisbætur til námsmanna og gerði ráð fyrir því að hún væri frá ríkisstjórninni. Ég ruglaðist á henni og sumarnáminu sem þar var undir, það eru tvö atriði sem ríkisstjórnin leggur til, sem sagt aukið sumarnám og svo fé í sumarvinnu námsmanna upp á 3.000 störf eða svo. Ég taldi upp annað og taldi upp atvinnuleysisbæturnar sem hitt sem ríkisstjórnin væri að gera, mér fannst svo sjálfsagt einhvern veginn að það væri fyllt upp í þá glufu sem gæti myndast. Það er takmarkaður fjöldi starfa í boði. Ekki hafa allir möguleika á sumarnámi, einhverjir gætu fallið á milli þannig að þetta er mjög eðlileg leið til að brúa bilið tæknilega. Við sjáum málið vonandi koma fljótt úr nefnd.