150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

vinna við stjórnarskrárbreytingar.

[15:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur boðað okkur formenn stjórnmálaflokkanna á fund vegna stjórnarskrárvinnu sem við höfum verið að sinna núna á þessu kjörtímabili og við eigum að mæta á fund forsætisráðherra næsta föstudag. Það kom alveg skýrt fram í viðhorfskönnun Félagsvísindastofnunar, sem var unnin fyrir hönd okkar í nefndinni, hvert viðhorf þjóðarinnar er. Skilaboðin eru þau að það þarf skýrt og klárt auðlindaákvæði. Að mínu mati er ákvæðið sem liggur fyrir núna ekki nægilega skýrt og treystir ekki rétt þjóðarinnar yfir auðlindunum. En gott og vel, ég ætla ekki að ræða það núna heldur miklu fremur hin skýru skilaboðin, sem eru: Einn maður, eitt atkvæði. Að misvægi atkvæða verði útrýmt.

Það er alveg skýrt samkvæmt viðhorfskönnuninni að eindreginn vilji þjóðarinnar er sá að það eigi að endurskoða það ranglæti sem felst í því misvægi atkvæða sem við búum við í dag. Þetta er eitt skýrasta dæmið um almannahagsmuni á okkar tímum. Og núna þegar við höfum tækifæri til að fara í þessi mál með allt veganestið sem við höfum, þessi skýru skilaboð, þá verðum við að mínu mati að taka á þessu. Þetta er eitt af þeim kjarnamálum sem Viðreisn byggir m.a. sinn málflutning og stefnu sína og hugsjónir á, að einn maður er ígildi eins atkvæðis.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún muni beita sér fyrir því að nákvæmlega þetta verði tekið upp. Miðað við gang mála (Forseti hringir.) er vilji þjóðarinnar alveg skýr og ég tel að við eigum að taka tillit til hans.